Innlent

Segir ráðherra hafa keypt sér aðgang að Alþingishúsinu

Sveinn Arnarsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir alþingismaður
Vigdís Hauksdóttir alþingismaður vísir/pjetur
Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, finnst afar sérkennilegt að til til að klára framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng þurfi á þriðja milljarð króna aukalán frá hinu opinbera. Hún segir þarna kristallast kjördæmapot síðustu ríkisstjórnar og atkvæðaveiðar Steingríms J. Sigfússonar í eigin kjördæmi fyrir síðustu kosningar.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að búið væri að grafa um 83 prósent af lengd ganga undir Vaðlaheiði og að stjórnendur framkvæmdanna þyrftu á þriðja milljarð í aukalán til að ljúka framkvæmdum. Kostnaðaraukann mætti rekja til ófyrirséðra atburða þar sem heitt vatn og hrun úr gangalofti hefði komið mönnum í opna skjöldu.

Frá Vaðlaheiðargöngum.Vísir/auðunn
„Það er alveg ljóst í mínum huga að áætlunum og rannsóknum á bæði jarðgöngum í Vaðlaheiði og uppbyggingu á Bakka var stórkostlega ábótavant. Milljarðavíxlar hafa lent á hinu opinbera á meðan á framkvæmdum stendur,“ segir Vigdís. 

„Hér er um grímulaust kjördæmapot að ræða þar sem atkvæðaveiðar í héraði voru stundaðar fyrir síðustu kosningar og menn keyptu sér aðgang að alþingishúsinu. Þetta hefði ekki gerst ef landið væri eitt kjördæmi því þá hefðu menn hugsað um þjóðarhag en ekki þrönga hagsmuni sína í eigin kjördæmi.“

Vaðlaheiðargöng, sem tengja saman Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur, voru samþykkt sem einkaframkvæmd í júní árið 2012. Lánin voru þó með ríkisábyrgð en lög um ríkisábyrgðir voru tekin úr sambandi við ákvarðanatökuna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×