Innlent

Gagnrýnir tilkynningu um lokun lyfjaverksmiðju Actavis

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Formaður Eflingar segist hafa skynjað á fulltrúum Actavis að þeim þyki miður sú staða sem upp sé komin.
Formaður Eflingar segist hafa skynjað á fulltrúum Actavis að þeim þyki miður sú staða sem upp sé komin. Vísir/GVA
Stéttarfélagi starfsmanna í lyfjaverksmiðju Actavis var tilkynnt um ákvörðun um að loka ætti verksmiðjunni morguninn sem starfsmönnum var sagt frá ákvörðuninni. Formaður Eflingar gagnrýnir vinnubrögð fyrirtækisins.

Ákvörðunin var tilkynnt starfsmönnum á mánudag en hún felur í sér að 300 störf í lyfjaverksmiðju fyrirtækisins í Hafnarfirði verða flutt erlendis. Ákvörðunin er tekin til að ná fram hagræðingu í rekstri eftir að félagið keypti annað lyfjafyrirtæki á síðasta ári.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, stéttarfélags stórs hluta starfsmanna lyfjaverksmiðjunnar, fundaði með fulltrúum Actavis í gær. Þar var farið yfir hvernig staðið yrði að ákvörðuninni.

„Við fengum á fund okkar tvo fulltrúa frá þeim þar sem þeir fóru yfir málið og fóru svo sem í gengum það sama og fram hefur komið í fréttum. Fóru í gegnum það hvernig þeir myndu standa að málum og hvaða áform væru þarna undir,“ segir hann.

Sigurður gagnrýnir Actavis fyrir hvernig staðið hafi verið að tilkynningu ákvörðunarinnar. Haft var samband við skrifstofu Eflingar morguninn sem aðgerðirnar voru kynntar fjölmiðlum og starfsfólki. Tilkynning um aðgerðirnar barst fjölmiðlum klukkan 17 mínútur yfir tíu á mánudags morgun.

Það breytir hins vegar engu að svona hlutir þurfa að fá miklu betri yfirferð þá með einhverjum tíma áður. Þannig að alla vega þannig að þeir sem eru trúnaðarmenn starfsmanna séu upplýstir með einhverjum þeim fyrirvara sem eðlilegur getur kallast, og menn eru þá beðnir um trúnað, en þetta sé ekki gert með eins eða tveggja tíma fyrirvara,“ segir hann.

Sigurður segir að ákvörðunin sé mjög mikið áfall fyrir fólk, sumir sem missa starfið hafi unnið stærstan hluta starfsævinnar hjá fyrirtækinu. Hann segist þó skynja á fulltrúum Actavis að þeim þyki miður að þetta sé staðan.

Maður skynjaði það að mönnum þyki það miður að þessi staða sé komin upp en lengra svo sem nær það ekki og það eru gefnar bara sömu skýringar og fram hafa komið í fjölmiðlum að þessi stærðarlega rekstrareining sé of smá til að hún sé rekin hérna á Íslandi,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×