Innlent

Gagnrýnir ákæruvaldið eftir sýknu umbjóðanda síns

Sveinn Arnarsson skrifar
Magnús Davíð Norðdahl
lögmaður
Magnús Davíð Norðdahl lögmaður
Tveir menn voru sýknaðir í gær í Héraðsdómi Norðurlands eystra en þeim var gert að sök að hafa gengið í skrokk á manni á Raufarhöfn á sjómannadaginn með þeim afleiðingum að fórnarlambið höfuðkúpubrotnaði auk þess sem það hlaut áverka á síðu.

Óumdeilt er að fórnarlambið varð fyrir áverkum þennan dag vegna barsmíða en ekki verður sannað að ákærðu hafi veitt honum þá áverka. Fleiri höfðu sig í frammi þetta kvöld og vitni sögðu ákærðu ekki hafa verið aðalgerendur í þessum slagsmálum. Skynsamlegt var því að mati dómara að sýkna mennina.

Magnús Davíð Norðdahl, verjandi annars mannsins, segist fagna sigrinum en gagnrýnir að sama skapi ákæruvaldið fyrir að hafa ákært í málinu. Sagði Magnús Davíð í viðtali við Fréttablaðið þann 25. nóvember síðastliðinn að aldrei hefði átt að ákæra í málinu. Ekkert sé í málinu sem renni stoðum undir sekt hinna ákærðu og framburður fórnarlambsins mjög óskýr. „Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í lok nóvember um málið,“ segir Magnús Davíð. „ Það er með öllu óásættanlegt í réttarríki að einstaklingar séu ákærðir á veikum grunni.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×