Innlent

Gagnrýna tvískinnung í norsku fiskeldi

Svavar Hávarðsson skrifar
Erfðamengun frá sjókvíaeldi ógnar íslenska laxastofninum – enda eldisfiskurinn af norskum uppruna.
Erfðamengun frá sjókvíaeldi ógnar íslenska laxastofninum – enda eldisfiskurinn af norskum uppruna. mynd/nasf
Landssamband veiðifélaga lýsir þungum áhyggjum af fyrirætlunum laxeldisfyrirtækisins Arctic Sea Farm um stóraukið laxeldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði.

Ekki síður gagnrýnir LV þann tvískinnung eiganda fyrirtækisins að stunda „grænt eldi“ í heimalandinu Noregi, en ekki hérlendis.

Arctic Sea Farm, sem áður hét Dýrfiskur, hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun vegna 8.000 tonna laxeldis í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Fyrirtækið hefur nú þegar leyfi til eldis á norskum laxi í Dýrafirði. Fyrirtækið er í helmingseigu Norway Royal Salmon, 47,5 prósent í eigu aðila sem skráðir eru á Kýpur og 2,5 prósent í eigu Novo ehf., segir í fréttatilkynningu LV.

Í matsáætluninni kemur fram að fyrirtækið vill leyfi til að flytja inn norskan laxastofn til ræktunar á Íslandi en slíkt er til að mynda bannað í Noregi, þar sem lög kveða á um að óheimilt sé að flytja inn erlenda laxastofna vegna mikillar hættu á erfðamengun.

Í tilkynningu LV kemur fram að Norway Royal Salmon hefur nú yfir að ráða 10 grænum eldisleyfum í Noregi, en slík leyfi eru háð þeim skilyrðum að eingöngu má nota geldan fisk til eldis.

„Norway Royal Salmon ætlar hins vegar að hagnast á eldi frjórra laxa í sjókvíum hér við land með þekktum afleiðingum fyrir hinn villta íslenska laxastofn. Fyrirtækið er því tilbúið til að stunda grænt eldi heima við en ekki í íslenskri náttúru með tilheyrandi hættu. Notkun geldstofna ryður sér nú til rúms í Noregi og ætti að vera skilyrði norskra laxa í sjókvíum við Ísland.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×