Innlent

Gagnrýna skýrslu um salerni á hringveginum

Sveinn Arnarsson skrifar
Bergur Þorri Benjamínsson varaformaður Sjálfsbjargar.
Bergur Þorri Benjamínsson varaformaður Sjálfsbjargar.
Í könnun Eflu á salernisaðstöðu á hringveginum, sem unnin var fyrir Stjórnstöð ferðamála, var aðgengi hreyfihamlaðra að téðri salernisaðstöðu ekki skoðað.

Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, segir að við gerð skýrslunnar hefði mátt ná mun betri upplýsingum en nú liggja fyrir.

„Það hefði mátt gera með betri upplýsingasöfnun án þess að kosta krónu aukalega. Aðgengismál fatlaðra voru ekkert skoðuð en á einum stað er minnst á að tiltekið salerni sé aðgengilegt fötluðum,“ segir Bergur Þorri.

„Vonandi eru þau mun fleiri en svo. Efla hefði átt að kanna sérstaklega hvort allir eigi kost á að nýta sér aðstöðuna. Ef vel á að vera þyrfti að fara annan hring og láta athuga þetta sérstaklega.“

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sætt gagnrýni fyrir það hversu hægt gengur að byggja upp innviði ferðaþjónustu á Íslandi. Er könnun Eflu liður í því að fjölga nýtanlegum salernum um hringveginn. Er nú unnið við uppbyggingu víðsvegar um landið fyrir um þrjú hundruð milljónir króna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×