Innlent

Gagnrýna harðlega frummat á umhverfisáhrifum Thorsil

Sveinn Arnarsson skrifar
Hörð gagnrýni er sett fram á frummatsskýrslu um umhverfismat kísilvers Thorsil í Helguvík.
Hörð gagnrýni er sett fram á frummatsskýrslu um umhverfismat kísilvers Thorsil í Helguvík. Fréttablaðið/GVA
Atlantic Green Chemicals og United Silicon mótmæla harðlega frummatsskýrslu Mannvits um umhverfismat af verksmiðju Thorsil í Helguvík. Vilja fyrirtækin að Skipulagsstofnun taki frummatsskýrsluna ekki til efnislegrar meðferðar.

Forsvarsmenn Atlantic Green gera athugasemdir við það að frummatsskýrsla Thorsil geri ráð fyrir því að verksmiðja þeirra rísi á lóð sem hefur áður verið úthlutað til Atlantic Green. Vilja þeir að Skipulagsstofnun láti af efnislegri umfjöllun um frummatsskýrsluna.

Magnús Garðarsson, umhverfisverkfræðingur og framkvæmdastjóri United Silicon, rannsakaði frummatsskýrslu Thorsil. Hann gerir alvarlegar athugasemdir við skýrsluna í fimm liðum og rökstyður hvern og einn þátt í skýrslu sinni. Niðurstöður loftdreifingarútreikninga í frummatsskýrslunni væru vafasamar, sammögnunaráhrif mengunar ekki metin, innihald brennisteins í kolefnum vanmetið, villandi notkun á þynningarsvæði Norðuráls og að Thorsil ehf. hafi verið úthlutað sömu lóð og AGC.

Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, gefur lítið fyrir þessa gagnrýni Magnúsar. „Í fyrsta lagi kemur þetta frá keppinaut á markaði. Ég ætla ekki að fullyrða hvort mat hans litast af því en hann er sannarlega keppinautur. Þarna er hann að vinna með ákveðið líkan af loftdreifingu. Við höfum verið í samvinnu við Mannvit og Vatnaskil sem hafa unnið með dreifingarlíkan um langa hríð við mörg stór verkefni. Það líkan hefur sannað sig að standast íslenskar kröfur og gefur rétta mynd,“ segir Hákon.

Rut Kristinsdóttir, sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun, segir stofnunina nú vera að vinna í því að viða að sér gögnum um málið. „Við höfum rétt á því í lögum að leita til þriðja aðila til að gera úttekt fyrir okkur og það munum við gera. Þarna eru athugasemdir sem koma fram við frummatsskýrslu Thorsil sem við tökum alvarlega og munum leitast við að svara þeirri spurningu hvers vegna reikningarnir eru svona mismunandi,“ segir Rut.

Mengun af verksmiðju Thorsil mun, að mati Garðars, hafa neikvæð og heilsuspillandi áhrif á loftgæði íbúa nærri Helguvík. Orðrétt segir í niðurstöðum Magnúsar að „…ef tekið hefði verið tillit til fyrrnefndra atriða í frummatsskýrslu Thorsil, mundi mat á umhverfisáhrifum gerbreytast, og líklega sýna að ekki væri skynsamlegt að staðsetja svona mikið af stóriðju á sama stað.“ Einnig segir: „Niðurstöður loftdreifingarútreikninga sýna án vafa, að samlegðar- og sammögnunaráhrif mengunarefna með annarri samsvarandi iðnaðarstarfsemi á svæðinu, munu valda því að styrkur mengunarefna mun fara yfir lögbundin viðmiðunarmörk og þannig valda óásættanlegum umhverfisáhrifum sem hafa í för með sér verulega neikvæð áhrif á heilsufar íbúa í norðurhluta Reykjanesbæjar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×