Innlent

Gáfu heyrnarskertri stúlku tvo gítara í jólagjöf

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þær Rós og Victoría voru á flakki á Þorláksmessu og komu við í Tónastöðinni til að skoða gítara.
Þær Rós og Victoría voru á flakki á Þorláksmessu og komu við í Tónastöðinni til að skoða gítara. Vísir/Rós Sveinbjörnsdóttir
„Það er ekki hægt að gefa stærri jólagjöf en þetta. Þetta hefur hún þráð lengi,“ segir Rós Sveinbjörnsdóttir, amma Victoríu Lindar sem fékk tvo gítara að gjöf frá Tónastöðinni nú um jólin, í samtali við Vísi. Victoría er heyrnaskert en mikil dans- og söngvastelpa, að sögn ömmu hennar.

Þær Rós og Victoría voru á flakki á Þorláksmessu og komu við í Tónastöðinni til að skoða gítara. Þar spjallaði Victoría við afgreiðslumann sem lánaði henni gítar sem hún byrjaði strax að slá á. „Verðið var allt of hátt en hann sagðist vita af einum gítar á lagernum,“ skrifar Rós á Facebook, en frásögnin hefur vakið mikla athygli.

Afgreiðslumaðurinn bað þær um að koma við í búðinni seinna svo þær gætu skoðað ódýrari gítarinn. Síðar um daginn var hringt úr búðinni og þeim sagt að gítarinn væri kominn í leitirnar. Þær brunuðu þá af stað aftur í Tónastöðina.

 „Þegar þangað var komið var henni réttur litill gítar sem smellpassaði við hana, hún byrjaði að slá á hann i búðinni augun ljómuðu og hún sagði, amma þessi passar við mig,“ skrifar hún.

„Þá segja drengirnir að hún mætti eiga hann og komu með annan stærri og færðu henni til að nota þegar hún stækkaði,“ skrifar hún og bætir við: „Hjartað i ömmunni stækkaði um 5 númer og stór kökkur myndaðist i hálsinum.“

Rós segir að Victoría hafi miss heyrnina upp úr fimm ára aldri en hún er 12 ára í dag. Hún er búin að fara í kuðungaaðgerð og er að fá heyrnina aftur á öðru eyranu. Heyrnaskerðingin hefur þó ekki komið í veg fyrir tónlistaráhugann. „Hún er mikil dans- og söngvastelpa,“ segir amma hennar.

Gítararnir hafa fært Victoríu mikla gleði um jólin. „Hún situr hérna og slær og slær,“ segir Rós.

„Þeim fannst bara svo yndislegt að heyrnaskert barn langaði i gítar, fallegri jólagjöf er varla hægt að gefa, þessir drengir eiga allir mínar bestu þakkir,“ skrifaði hún á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×