Enski boltinn

Gaf í skyn að fórnarlömb kynferðisofbeldis væru skræfur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Piers Morgan og Eric Bristow tókust á í sjónvarpinu í morgun.
Piers Morgan og Eric Bristow tókust á í sjónvarpinu í morgun. Vísir/Getty
Eric Bristow, fyrrum heimsmeistari í pílukasti, náði að blanda sér í umræðuna um kynferðisofbeldi sem knattspyrnumenn hafa orðið fyrir á óviðeigandi hátt.

Bristow gaf í skyn á Twitter-síðu sinni að píluleikmenn væru „harðir náungar“ en að knattspyrnumenn væru „skræfur.“

Enn fremur velti hann því fyrir sér af hverju fórnarlömbin gripu ekki til sinna mála á fullorðinsaldri.

Síðustu daga og vikur hafa fjölmargir knattspyrnumenn í Bretlandi stigið fram og greint frá því að þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi þjálfara sinna í æsku.

Bristow hafði  starfað sem lýsandi hjá Sky Sports í útsendingum frá pílukeppnum en var sagt upp störfum á þriðjudag, sama dag og umræddar Twitter-færslur litu dagsins ljós.

Bristow var svo gestur morgunþáttarins Good Morning Britain á ITV-sjónvarpsstöðinni þar sem hann var tekinn fyrir af Piers Morgan, líkt og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Bristow reyndi í fyrstu að verja skrif sín á Twitter en baðst svo afsökunar á orðalagi sínu. Í dag kom svo yfirlýsing frá Bristow þar sem hann baðst afsökunar á öllu saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×