Sport

Gaf allri sóknarlínunni tölvur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
DeMarco Murray, hlaupari hjá NFL-liðinu Dallas Cowboys, hefur verið magnaður á fyrri hluta tímabilsins vestanhafs en enginn hlaupari hefur byrjað betur í sögu deildarinnar.

Á sunnudag sló Murray 56 ára gamalt met Jim Brown með því að hlaupa yfir 100 jarda í öllum sjö leikjum tímabilsins til þessa. Alls er hann kominn með 913 jarda á tímabilinu og ef hann heldur uppteknum hætti bætir hann 30 ára gamalt met Eric Dickerson fyrir flesta jarda á einu tímabili.

Hlauparar og leikstjórnendur í NFL-deildinni eru háðir því að vera með góða „sóknarlínu“ fyrir framan sig - fimm manna línu sem verst áhlaupi andstæðingsins. Sóknarlínan hjá Dallas er ein sú besta í NFL-deildinni í dag og ákvað Murray að þakka fyrir sig með því að gefa þeim öllum glænýja iMac-borðtölvu. Stykkið kostar um 156 þúsund krónur út úr búð vestanhafs.

„Það sýnir bara hversu mikla virðingu hann ber fyrir okkur. Þetta er frábær gjöf,“ sagði Ronald Leary við fjölmiðla í Bandaríkjunum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×