Innlent

Gætu þurft að sitja inni saklausir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson
Guðmundur Ingi Þóroddsson
„Þetta kostar fangelsin mikla peninga og tekur pláss frá öðrum sem eiga rétt á að taka út dóma sína,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, en undanfarið hefur það verið viðvarandi að fangar sem eru í fangelsi og eru að afplána dóm fái ekki reynslulausnir vegna þess að þeir eru með mál í kerfinu. Þá er lögreglan að skoða og rannsaka mál á hendur þeim fyrir annað brot og óvíst hvort þeir verði kærðir eða ekki. „Mörg málanna falla svo niður eða fangarnir eru sýknaðir fyrir dómi. Þetta verður til þess að stundum sitja fangar af sér tíma í fangelsi fyrir brot sem hugsanlega eru felld niður eða þeir saklausir af.“

Guðmundur segir nokkur slík mál í gangi í dag og þau séu mörg á hverju ári. „Fyrr á þessu ári sleppti Fangelsismálastofnun nokkrum föngum út eftir að ekkert hafði gerst í þeirra málum í að verða tvö ár. Enn er þeim málum ólokið.“

Afstaða hefur óskað eftir því við Fangelsismálastofnun að sett verði tímamörk á slík mál og einstaklingum sleppt um leið ef ekki er kominn dómur innan tímamarka. „Við teljum að lögreglan sinni ekki þessum málum og láti þau bíða eins lengi og mögulegt er í einhverjum tilfellum, bæði til þess að fanginn sitji lengur inni og einnig vegna undirmönnunar hjá lögreglunni.“

Ekki náðist í fangelsismálastjóra við gerð fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×