Innlent

Gætu orðið umskipti í veðrinu um og eftir helgi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Snjórinn sem féll á höfuðborgarsvæðinu verður út vikuna.
Snjórinn sem féll á höfuðborgarsvæðinu verður út vikuna. vísir/eyþór
„Þetta verður rólegheitaveður út vikuna og fram yfir helgi og vægt frost í borginni svona lengst af svo snjórinn er ekkert að fara,“ segir Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi um veðrið næstu daga.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það gætu orðið einhver umskipti í veðrinu um og eftir helgi en aðspurður um það segir Haraldur:

„Það er góðviðri hérna fram á helgi víða um lands en svo eftir helgina fara lægðirnar að verða heldur nærgöngulari án þess þó að það sé eitthvað alvarlegt.“

Á mánudag gæti því byrjað að rigna eða komið einhver slydda.

Veðurhorfur í dag og næstu daga eru annars þessar:

Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað, en norðan 8-13 metrar á sekúndu austanlands og lítilsháttar él. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum að næturlagi.

Á fimmtudag og föstudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað. Norðan 8-13 metrar á sekúndu austast á landinu og lítilsháttar él. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag og sunnudag:

Austan 3-8, en 8-13 með suðurströndinni. Bjart veður norðan- og vestantil á landinu, en dálítil él á Suðausturlandi og Austfjörðum. Frostlaust að deginum við S- og A-ströndina, annars frost að 8 stigum, mest í innsveitum fyrir norðan.

Á mánudag:

Austan 5-13, en suðlægari seinnipartinn. Rigning S- og A-lands, en annars þurrt að kalla. Hiti 0 til 5 stig að deginum.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með slyddu og síðar rigningu, en úrkomulítið fyrir norðan. Hlýnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×