Erlent

Gætu hafið ofsóknir á hendur blaðamönnum og bloggurum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Núverandi skilgreining breskra stjórnvalda á „hryðjuverkum“ er svo víðtæk að blaðamenn og bloggarar þar í landi gætu átt á hættu að vera stimplaðir hryðuverkamenn fyrir að „birta efni sem yfirvöld telja hættulegt almenningi.“

Þetta kemur fram í máli Davids Anderson lögmanns sem hefur verið falið að endurskoða hryðjuverkalöggjöfina þar í landi. Hann segir núverandi lagabálk einhvern þann ítarlegasta sem fyrirfinnst í vestrænu ríki en hann hefur gert lögregluyfirvöldum kleift að beita sér af miklum krafti gegn hryðjuverkasamtökum á borð við Al-Qaeda, öfgahreyfingum á hægri vængnum og herskáum hópum Norður-Íra.

„Ef almenningur sættir sig við þessar miklu heimildir er nauðsynlegt að þeim sé beint á réttar brautir. Ef ekki svo er ekki þá hefur einnig fjöldi frumvarpa verið lagður fram sem hefur aukið fyrirliggjandi heimildir en auðvelt ætti að vera að draga til baka án stórkoslegra afleiðinga,“ segir Anderson.

Hann telur að útgáfa hverskyns efnis sem ætlað er að hafa áhrif á stjórnvöld þar í landi megi túlka samkvæmt núverandi lögum sem hættulega og til þess fallna að valda ógna öryggi og heilsu bresks almennings.

Anderson segir meðal annars: „Þetta þýðir að blaðamenn og bloggarar gætu átt von á því að verða fyrir barðinu á lögreglunni ef þeir hóta eða undirbúa útgáfu á efni sem yfirvöld gætu túlkað sem ógn við almannaöryggi.“ Hann bætir við að núverandi skilgreining gæti þannig átt við um hvern þann sem mótmælir bólusetningum á þeim forsendum að þær séu skaðlegar heilsu almennings.

Hann segir niðurstöður sínar þó ekki vera áfellisdóm yfir ríkisstjórninni, saksóknurum eða lögreglunni heldur ætti frekar að túlka þær sem þarfa áminningu um að víða sé pottur brotinn í löggjöfinni sem þurfi að taka til gagngerrar endurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×