Erlent

Gætu fljótlega framleitt plútóníum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Útsending frá niðurrifi Jongbjon-kjarnaofnsins 2008.
Útsending frá niðurrifi Jongbjon-kjarnaofnsins 2008. Nordicphotos/AFP
 Bandaríska leyniþjónustan telur að stjórnvöld í Pjongjang hafi endurræst kjarnaofn sem hefur burði til að framleiða plútóníum í kjarnorkuvopn.

Norður-Kóreumenn lýstu því yfir í september að kjarnorkuverið í Jongbjon hefði verið endurræst.



Síðastliðinn laugardag skaut Norður-Kórea á loft eldflaug sem hefur getu til að bera kjarnorkuvopn.

Sérfræðingar bandarísku leyniþjónustunnar telja að ofninn hafi verið virkur nægilega lengi til að fyrstu plútóníumafurðirnar verði klárar innan fárra vikna eða mánaða.

Fjögur kíló af plútóníumi þarf til að gera sprengju sem hefur sprengigetu upp á tuttugu kílótonn.

Til samanburðar var „Feiti maðurinn“, sprengjan sem grandaði Nagasaki árið 1945 plútóníumsprengja með sprengigetu upp á 20 til 22 kílótonn.

Yfirvöld í Norður-Kóreu lofuðu árið 2008 að draga úr starfsemi Jongbjon-kjarnorkuversins og sprengdu meðal annars í loft upp kæliturn versins. Síðan þá hafa Norður-Kóreumenn þó haldið áfram kjarnorkutilraunum sínum og hlotið þyngri refsingar af hálfu Sameinuðu þjóðanna fyrir vikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×