Lífið

Gæti verið sonur Ladda og Dorritar

Baldvin Þormóðsson skrifar
Saga Garðarsdóttir segir einleikinn vera ævintýralegur hugarheimur Kenneths Mána.
Saga Garðarsdóttir segir einleikinn vera ævintýralegur hugarheimur Kenneths Mána. vísir/andri marinó
„Okkur fannst hann bara ekki hafa sagt sitt síðasta,“ segir Saga Garðarsdóttir, en hún vinnur að einleik persónunnar Kenneths Mána ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni og Birni Thors sem fór eftirminnilega með hlutverk Kenneths í þáttunum Fangavaktin.

„Þetta er í rauninni bara um Kenneth og hugarheim hans sem er svo ævintýralegur. Hann er eins og samsuða af boltalandinu í IKEA og Hogwarts-skóla galdra og seiða nema öllum er boðið og enginn er á svörtum lista.“

Saga segir verkefnið vera virkilega skemmtilegt en Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir einleiknum.

„Ef ég myndi fá einhvern til þess að leikstýra lífi mínu þá myndi ég fá leikhúshetjuna Berg Þór,“ segir Saga og hlær. „Þá væri allt í senn spennandi, innihaldsríkt og skemmtilegt.“

Þríeykið stefnir að því að frumsýna einleikinn í Borgarleikhúsinu í lok september en Saga hefur gríðarlegan áhuga á persónunni.

„Hann er bara svo sjarmerandi og tryllingslega sympatískur, maður gæti trúað því að hann væri sonur Dorritar og Ladda nema ef svo væri þá væri líklega betur komið fyrir honum,“ segir Saga.

„Ég myndi sennilega byrja með honum ef hann væri minna í fangelsi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×