Erlent

Gæti verið ólöglegt að horfa á aftöku Foley

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsmenn Twitter vinna nú að því að stöðva dreifingu hryllilegra myndskeiða og stillimynda úr myndbandinu.
Starfsmenn Twitter vinna nú að því að stöðva dreifingu hryllilegra myndskeiða og stillimynda úr myndbandinu. Vísir/AP
Breska lögreglan Scotland Yard hefur varað breskan almenning við að ólöglegt gæti verið að horfa á, hlaða niður eða dreifa myndbandinu af aftöku bandaríska blaðamannsins James Foley sem IS-liðar dreifðu á netið í gær.

Í grein Independent segir að hryðjuverkadeild bresku lögreglunnar hafi rannsakað innihald myndbandsins og segir áhorf, niðurhal eða dreifingu myndbandsins kunna að varða við bresk hryðjuverkalög.

Starfsmenn Twitter vinna nú að því að stöðva dreifingu myndskeiða og stillimynda úr myndbandinu.

Í myndbandinu, sem ber heitið „Skilaboð til Bandaríkjanna“, sést einnig til Steven Sotloff, annars bandarísks blaðamanns sem er í haldi IS-liða. Kemur fram að aðgerðir Bandaríkjanna í Íraks muni ráða framtíð Sotloffs.

Á vef CNN kemur fram að talsmenn bandarísku alríkislögreglunnar hafi tilkynnt að talið sé að myndbandið sé af Foley og að það sé ekta.

Böðullinn í myndbandinu talar með breskum hreim og ákvað David Cameron, forsætisráðherra Bretlands að stytta frí sitt til að fylgjast með leitinni að morðingjanum.

Í frétt BBC kemur fram að breski utanríkisráðherrann Philip Hammond segist ekki vera hissa að heyra breskan hreim böðulsins þar sem mikill fjöldi breskra ríkisborgara vera hluta af vígasveitum IS.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×