Innlent

Gæti þurft að fresta öllu flugi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Ef til dæmis það verður ekki hægt að afgreiða eldsneyti þá verður líklega að aflýsa flestum flugferðum,“ segir Guðni.
"Ef til dæmis það verður ekki hægt að afgreiða eldsneyti þá verður líklega að aflýsa flestum flugferðum,“ segir Guðni. vísir/vilhelm
Verkfall starfsmanna í flugafgreiðslu gæti haft alvarleg áhrif á flugsamgöngur, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa ISAVIA. Hann segir að mögulega þurfi að aflýsa öllu flugi, fari allt á versta veg.

„Áhrifin eru aðallega á þjónustufyrirtæki sem þjónusta flugfélögin, en áhrifin á okkar starfsemi [Isavia] eru engin. Ef það er ekki hægt að þjónusta flugfélögin þá geta þau ekki flogið. Við vitum það samt hreinlega ekki enn þá en ef til dæmis það verður ekki hægt að afgreiða eldsneyti þá verður líklega að aflýsa flestum flugferðum,“ segir Guðni í samtali við Vísi.

Áætlað verkfall starfsmanna í flugafgreiðslu er 31. maí og 1. júní eða í tvo sólarhringa, náist ekki samningar. Ótímabundið verkfall er boðað 6. júní.

Starfsmenn flugafgreiðsluaðila þjónusta flugfélög á Keflavíkurflugvelli meðal annars við eldsneytisafgreiðslu, innritun og að hlaða farangri um borð í flugvélar. ISAVIA hvetur farþega sem eiga bókað flug að hafa samband við sitt flugfélag.

Uppfært klukkan 14.34

Guðni Sigurðsson hafði samband við fréttastofu eftir að hafa fengið nýjar upplýsingar frá flugfélögunum þess efnis að þau geti fengið eldsneyti annars staðar en í Keflavík. Ákvarðanir hafi þó ekki verið teknar og staðan eins og hún horfi við félögunum nú með öllu óljós.

Uppfært klukkan 15:55

Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að verkfallið stæði yfir í sólarhring. Hið rétta er að starfsmenn í flugafgreiðslu munu leggja niður störf í tvo sólarhringa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×