Enski boltinn

Gæti fagnað sigri í tveimur efstu deildum Englands sama tímabilið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tveir titlar sama árið.
Tveir titlar sama árið. vísir/getty
Belgíski varnarmaðurinn Ritche De Laet er heldur betur í áhugaverðri stöðu fyrir lokaumferðir ensku úrvalsdeildarinnar og ensku B-deildarinnar. Hann gæti fengið verðlaunapening fyrir sigur í þeim báðum sama tímabilið.

Þessi 27 ára gamli leikmaður, sem kom upphaflega til Englands til að spila með Stoke árið 2007 en var svo í herbúðum Manchester United frá 2009-2012, er samningsbundinn Leicester í dag.

Hann hóf tímabilið með Leicester en var svo lánaður á miðju tímabili til Middlesbrough sem er í toppbarátunni í B-deildinni.

Leicester getur orðið Englandsmeistari á sunnudaginn vinni liðið Manchester United á Old Trafford og Middlesbrough getur komist á toppinn í B-deildinni á föstudagskvöldið með sigri á Birmingham.

Middlesbrough þarf síðan að vinna Brighton í lokaumferðinni, sem er í þriðja sæti B-deildarinnar, til að tryggja sér sigur í deildinni og mögulega þarf það að komast upp fyrir Burnley á markatölu en Burnley er með einu marki meira í plús.

Belginn spilaði tólf leiki fyrir Leicester áður en hann var lánaður til Boro í janúar þar sem hann er búinn að spila níu leiki fyrir lærisveina Aitor Karanka.

Aðeins þarf að spila fimm leiki í úrvalsdeildinni til að fá verðlaunapening og því er De Laet gjaldgengur til þess. Sigurlið B-deildarinnar fá svo 18 verðlaunapeninga til að dreifa á liðið hvernig sem það vill en það getur sótt um fleiri.

Samkvæmt frétt Sky Sports verður Ritche De Laet fyrsti maðurinn í sögunni sem vinnur bæði ensku úrvalsdeildina og ensku B-deildina sama tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×