Innlent

Gæsluvarðhald yfir meintum barnaníðingi framlengt

Atli Ísleifsson skrifar
Akureyri.
Akureyri. Vísir/Pjetur
Gæsluvarðhald yfir rúmlega þrítugum manni sem grunaður er um kynferðisbrot gegn tveimur átta ára drengjum á Akureyri hefur verið framlengt til 14. desember, dagsins þegar dómur fellur í málinu. Vikudagur greinir frá þessu.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu. Manninum er haldið í gæsluvarðhaldi vegna alvarleika brotanna sem hann er ákærður fyrir en þau geta varðað allt að 10 ára fangelsi samkvæmt refsiramma íslenskra hegningarlaga. 

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem Hæstiréttur staðfesti þann 28. ágúst sl., er manninum gefið að sök að hafa tælt tvo átta ára drengi inn í íbúð sína, en þeir voru í boltaleik fyrir utan heimili hans. Að sögn drengjanna kom maðurinn út og sakaði þá um að hafa sparkað bolta í bíl sinn. Hann mun hafa hótað drengjunum að hringja á lögregluna nema að þeir kæmu með honum inn og ræddu málið.

Þegar inn var komið segir annar drengjanna að maðurinn hafi girt niður um þá. Hinn drengurinn segir að maðurinn hafi skipað þeim að taka sjálfir buxurnar niður um sig. Þá mun hann hafa skipað drengjunum að rassskella hvor annan. Hann mun einnig hafa skipað drengjunum að slá hvorn annan fastar þar sem honum fannst höggin vera of létt. Maðurinn mun síðan hafa rassskellt þá sjálfur og slegið þá ítrekað með flötum lófa að því er fram kemur í vitnisburði drengjanna.

Læknisskoðun leiddi í ljós að báðir drengirnir voru með áverka eftir rassskelli og kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að annar drengurinn hafi „einnig haft aðra áverka sem samrýmist sögu hans. Sá drengur staðhæfi einnig að drengirnir hafi ítrekað spurt sakborning hvort þeir mættu fara heim en hann sagt þeim að þegja.“

Sýslumaður telur, miðað við frásagnir drengjanna og foreldra þeirra, að þeir hafi verið í um hálfa klukkustund inni hjá manninum. Maðurinn hefur viðurkennt að hafa rassskellt þá en ber við minnisleysi þegar hann er spurður um aðra hluti sem gerst hafi í íbúðinni. Hann segir þó drengina hafa fylgt sér í íbúðina sjálfviljugir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×