Innlent

Gæslumaður skallaður og spellvirki á harðahlaupum í Eyjum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr Dalnum í gærkvöldi. Daníel Ágúst og Jón Jónsson sjást hér syngja fyrir lýðinn.
Úr Dalnum í gærkvöldi. Daníel Ágúst og Jón Jónsson sjást hér syngja fyrir lýðinn. vísir/óskar p. friðriksson
Þrátt fyrir að „góður andi væri í dalnum“ að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum gistu tveir fangageymslu í nótt.

Annar gerðist uppvís að því að skalla gæslumann í Herjólfsdal en hinn var staðinn að eignaspjöllum.

Lögreglumenn urðu vitni að því að þegar maðurinn spreyjaði á geymslutank á vegum vinnslustöðvar í bænum og tók spellvirkinn á rás þegar hann varð lögreglunnar var. Upphófst þá mikill eltingaleikur en að lokum höfðu lögreglumenn hendur í hári mannsins.

Hann var látinn gista hjá lögreglunni í nótt og verður kærður fyrir eignaspjöll að sögn Jóhannesar Ólafssonar, yfirlögregluþjóns í Eyjum.

Á sjötta tug fíkniefnamála hefur komið upp það sem er af er þjóðhátíð. Í langflestum tilvikum er um hvít efni að ræða í neysluskömmtum – „þó svo að hér sé öll flóran“ samkvæmt Jóhannesi.

Þessi mikli fjöldi mála er rakinn til aukinnar gæslu í Eyjum yfir hátíðina en sex lögregluþjónar sjá alfarið um fíkniefnamál yfir helgina. Þeir njóta liðsinnis þriggja fíkniefnahunda.

Fyrstu gestir þjóðhátíðar fóru heim með Herjólfi klukkan fjögur í nótt en búist er við að það muni heldur fjölga í dalnum í kvöld þegar blysin verða tendruð og Vestmannaeyjar sameinast í brekkusöng. 

Þúsundir manna voru í Heimaey í nótt og mátti greina fjöldamörg bros á vörum þjóðhátíðargesta. Hér að ofan má sjá myndir sem Óskar P. Friðriksson tók á hátíðinni í gær og kennir þar ýmissa grasa. Má þar meðal annars sjá söngfuglinn Jón Jónsson leika fyrir dansi sem og Daníel Ágúst og félaga í Nýdanskri trylla lýðinn.

Rífandi stemning í Herjólfsdal í gærvísir/óskar p. friðriksson
Vísir/Óskar P. Friðriksson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×