Innlent

Gæði samverustunda við foreldra mikilvægari en fjöldinn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að íslenskir unglingar eru hamingjusamari nú en fyrir tíu árum. Nærvera og umhyggja skipta höfuðmáli.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að íslenskir unglingar eru hamingjusamari nú en fyrir tíu árum. Nærvera og umhyggja skipta höfuðmáli. vísir/stefán
93 prósent íslenskra barna sem eiga mjög auðvelt með að fá umhyggju frá foreldrum sínum eru hamingjusöm.

Umhyggja frá foreldrum er sterkasti þátturinn þegar kemur að hamingju barna. Þetta kemur fram í rannsókninni Ungt fólk sem gerð var á 14-15 ára börnum á tíu ára tímabili, frá árinu 2000 til 2010.

„Það að það sé traust, að börn upplifi að hlustað sé á þau og þau geti leitað til foreldra sinna, skiptir meira máli en fjöldi tíma sem foreldrar verja með börnum sínum. Hér skipta gæðin meira máli en fjöldi tíma,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti Landlæknis. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni hennar.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti Landlæknis
„Það nægir ekki að vera eingöngu líkamlega til staðar. Foreldrar þurfa líka að vera andlega til taks. Ef fólk þarf að svara tölvupósti eða símanum er gott að gefa sér tíma í það en leggja svo frá sér símann eða tölvuna og vera heilshugar til staðar. Nútvitundarþjálfun er góð til að ná þessu markmiði.“

Dóra segir aukningu vera í hamingju unglinga enda virðist íslenskir foreldrar gefa sér meiri tíma með börnum sínum en áður.

„Aftur á móti eru tíu prósent barna á Íslandi óhamingjusöm og við þurfum að huga vel að þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×