Erlent

G8-ríkin lýsa stuðningi við uppreisnina

Að venju fylgja G8-fundinum skrautlegir mótmælendur, sem að þessu sinni hafa sett upp grímur leiðtoganna og klætt sig upp að hætti franskra aðalsmanna frá fyrri tíð.nordicphotos/AFP
Að venju fylgja G8-fundinum skrautlegir mótmælendur, sem að þessu sinni hafa sett upp grímur leiðtoganna og klætt sig upp að hætti franskra aðalsmanna frá fyrri tíð.nordicphotos/AFP
Uppreisn almennings í arabaheiminum verður eitt helsta viðfangsefni leiðtogafundar G8-ríkjanna, sem haldinn verður í hafnarborginni Deauville í Frakklandi í dag og á morgun.

Glíman við fjárlagahalla og aðhaldsaðgerðir vegna heimskreppunnar fá sinn sess á ráðstefnunni, en ástandið í arabaheiminum kallar á sérstaka athygli, sem meðal annars birtist í því að leiðtogarnir ætla að lýsa yfir stuðningi við uppreisnarhreyfingarnar.

Sérlegir gestir á G8-fundinum verða leiðtogi Arababandalagsins og forsætisráðherrar hinna nýju stjórna í Túnis og Egyptalandi, löndunum tveimur þar sem „arabíska vorið“ svonefnda hófst í vetur og þar sem uppreisnarbylgjan hefur jafnframt náð mestum árangri.

Leiðtogar Túnis og Egyptalands gera sér meðal annars vonir um ríkulega efnahagsaðstoð frá heimsveldunum átta, auðugustu ríkjum heims. Vegna átakanna í Líbíu, sem liggur á milli Túnis og Egyptalands, hafa ferðamenn forðast að leggja leið sína til þessara tveggja landa með þeim afleiðingum að nýju stjórnvöldin óttast um sinn hag.

„Það sem við þurfum eru peningar,“ sagði Jaloul Ayed, fjármálaráðherra Túnis. „Besta leiðin til þess að festa lýðræði í sessi er að tryggja velferð almennings.“ Á fundinum stendur sem sagt til að stofna nýjan samstarfsvettvang G8-ríkjanna og „þeirra nágranna okkar við sunnanvert Miðjarðarhaf sem hafa valið sér braut frelsis og lýðræðis,“ eins og Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, orðaði það í gær. Barroso verður fulltrúi Evrópusambandsins á fundinum ásamt Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB.

Meðal annars er hugmyndin sú, að koma á fót nýrri „Marshall-aðstoð“ til handa arabaríkjum, sem hafa steypt einræðisherrum af stóli, eitthvað í líkingu við þá aðstoð sem Bandaríkin veittu Evrópuríkjum til að hjálpa þeim að rísa upp úr rústum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Átökin í Líbíu gætu þó sett strik í reikninginn, enda gera þau bæði Túnisum og Egyptum lífið erfitt, auk þess sem Evrópuríkin og Atlantshafsbandalagið virðast ekki hafa nein ráð til að binda fljótt enda á þau átök.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×