Skoðun

Hús­næðislof­orð ríkis­stjórnarinnar: Ekkert að marka

Kristrún Frostadóttir skrifar

Innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins sagði í síðasta mánuði í sérstakri umræðu á Alþingi um húsnæðismál:

„Sá ráðherra er hér stendur leggur mikla áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis um allt land og hefur lagt inn tillögur í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 um verulega aukningu fjármuna til að fjölga uppbyggingu íbúða fyrir tilstuðlan opinbers húsnæðisstuðnings… við erum með framtíðarsýn, við erum með plan og það skýrist.“

Í grein í Morgunblaðinu á sama tíma boðaði formaður Framsóknarflokksins stofnun stýrihóps til að móta húsnæðisstefnu fyrir Ísland. Stefnuna átti svo að leggja fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunar. Slík stefna er lykilatriði í komandi kjarasamningum, sér í lagi ef koma á í veg fyrir að verðbólguskrið fari af stað.

Í greininni sagði innviðaráðherra:

„Ef mín áform ganga eftir verður lagður grundvöllur að því að hér á landi verði hægt að stórauka húsnæðisuppbyggingu á næstu árum og jafnvel horft til þess að setja markið á að það verði byggðar allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og þar af 7.000 með aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings. Við erum með skýr markmið.“

Þetta plan hefur nú skýrst. Og það plan heitir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem ákvarðar fjármögnun verkefna á kjörtímabilinu.

Fjármagn í húsnæðismál dregst saman á tímabilinu, til ársins 2027. Í áætluninni má finna viðbótar 500 milljónir króna til að mæta fjölgun leigjenda á tímabilinu – ekki aukinn stuðning við hópinn heldur til að mæta fjölgun. Að öðru leyti dregst húsnæðisstuðningurinn saman. Stofnframlög til að byggja almennar íbúðir dragast saman um 2 milljarða króna. Stofnframlög sem eru undirstaða framboðsaðgerða stjórnvalda. Stjórnvalda sem hafa ítrekað talað um að framboðshliðin á íbúðamarkaði sé brostin.

Inntur eftir viðbrögðum við hvers vegna algjört ósamræmi sé á milli yfirlýsinga innviðaráðherra og þess fjármagns sem veitt er í áætlunum stjórnvalda sagði fjármálaráðherra á Alþingi að ekki væri tímabært að setja tölu á hversu sterkt stjórnvöld eigi að stíga niður í húsnæðismálum.

Þetta er í hrópandi ósamræmi við orð innviðaráðherra sem hefur ítrekað varpað fram tölusettu markmiði: 7000 íbúðir með aðkomu hins opinbera yfir 5 ára tímabili. Það eru 1400 íbúðir á ári. Langt umfram þann fjölda sem núverandi húsnæðisstuðningur hins opinbera stendur undir, hvað þá eftir að skorið verður niður í þeim málaflokki m.v núverandi áætlun stjórnvalda.

Þessar innistæðulausu yfirlýsingar eru grafalvarlegt mál. Annað hvort er innviðaráðherra viljandi að afvegaleiða þjóðina þegar velferðarumbótum er lofað sem enginn stuðningur er við í fjármálaráðuneytinu, eða hann er ekki læs á fjármálaáætlun eigin ríkisstjórnar og þar með hver raunverulega stjórnar. Hvort er verra?

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×