Erlent

Far­þega­flug­vél Et­hiopian Air­lines hrapaði á leið til Naíró­bí

Atli Ísleifsson skrifar
Vélin var á leið frá Addis Ababa til Naíróbí.
Vélin var á leið frá Addis Ababa til Naíróbí. Getty
Allir 157 um borð í flugvél eþíópíska flugfélagsins Ethiopian Airlines, ET302, fórust þegar hún hrapaði á leið sinni frá Addis Ababa til kenísku höfuðborgarinnar Naíróbí í morgun.

Þetta staðfestir skrifstofa forsætisráðherra Eþíópíu. Vélin var af gerðinni Boeing 737-800MAX. Alls voru 149 farþegar um borð og átta í áhöfn. BBC segir frá því að hinir látnu hafi komið frá 33 ríkjum. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu klukkan 11 höfðu engar tilkynningar borist ráðuneytinu að íslenskir ríkisborgarar hafi verið um borð.

Vélin tók á loft klukkan 8:38 og missti samband við flugturn sex mínútum síðar, klukkan 8:44. Vélin hrapaði við borgina Bishoftu, suðaustur af Addis Ababa.



Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem farþegavél af gerðinni Boeing 737-800MAX hrapar, en síðasta haust hrapaði vél Lion Air fyrir utan Jakarta í Indónesíu.

Vélarnar eru tiltölulegar nýjar og komu fyrst á markað árið 2016. Eþíópíska ríkisflugfélagið bætti vélunum við flotann á síðasta ári.

Ethopian Airlines er stærsta flugfélag Afríku og er að fullu í eigu eþíópíska ríkisins.

Þetta er ekki fyrsta mannskæða flugslysið í sögu Ethiopian Airlines. Árið 2010 fórust níutíu manns þegar vél félagsins hrapaði í Miðjarðarhaf eftir að hafa tekið á loft í líbönsku höfuðborginni Beirút.

Mannskæðasta slysið í sögu flugfélagsins varð hins vegar í nóvember 1996 eftir að hópur manna hafði rænt vél, og flugmenn reyndu að nauðlenda á vatni eftir að eldneytið hafði klárast. Rakst vélin á kóralrif og fórust 123 af 175 um borð.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×