Skoðun

Hatrið sigrar ekki!

Áslaug Einarsdóttir skrifar
Breiðagerðisskóli fékk beiðni frá Rúv um að útvega hóp nemenda í innslag sem sýnt var á milli atriða í Eurovisionkeppninni. Innslagið tengist lagi hatara og er að undirlagi RÚV og í fullu samráði við þá stofnun. Beiðnin var kynnt á þá leið að um væri að ræða myndbrot sem ekki væri tengt boðskapi hatara heldur væri einhvers konar mótvægi við þann boðskap.  Tölvupóstur barst foreldrum barna í þriðja og fjórða bekk í Breiðagerðisskóla deginum áður en innslagið var tekið upp og margir ekki búnir að opna póstinn í tæka tíð eða höfðu nokkur tök á því að ræða þetta við börn sín. Foreldrum var gefinn kostur á að hafna þátttöku barna sinna í gjörningnum en ekki var farið fram á samþykki foreldranna. Þar sem fyrirvarinn var nánast enginn var krökkunum ekki gefið val eða svigrúm til að taka upplýsta ákvörðun í samráði við foreldra sína um hvort þau vildu leggja lag sitt við hóp hataranna. Eurovision er mikil barnaskemmtun og að koma fram í beinni útsendingu í sjónvarpi í Euróvisionkeppninni hlýtur að vera mjög spennandi.

Hatararnir komu í skólann og innslagið var tekið upp á venjulegum skólatíma eins og um hluta af náminu væri að ræða. Mótvægið sem þessi gjörningur var sagður eiga að endurspegla var enginn heldur endurómun á boðskapi hatara um sigur sjálfs hatursins. Hatarar eru yfirlýstur BDSM hópur þar sem leðurólar, gaddar og kynferðislegri órar virðast ráða ríkjum. Boðskapur þeirra er ekki uppbyggilegur á neinn hátt þrátt fyrir meinta pólitíska afstöðu sem í því ljósi komast upp með ólýsanlegan óhugnað í sjálfu ríkissjónvarpinu. Textinn í laginu „hatrið sigrar“ sem þessi stóri hópur barna voru látin taka þátt í fjallar um vonleysi, tóm, depurð og angist þar sem engin gleði finnst og tilgangsleysi ríkir. Einnig er þar fjallað um svall, þynnku, blekkingar, refsingar, aumingja, lygar og tálsýn.

Viðbrögð fólks við gjörningnum og það mikla fylgi sem hann fær er mér hulin ráðgáta. Fólk talar um hina mikilvægu pólitísku ádeilu og sver sig stolt í ætt hóps svokallaðra hatara sem settir eru í búning hetjunnar sem þorir að bera út mikilvægan boðskap sinn. Foreldrar virðast hæstánægð með sigurlagið og telja það eiga erindi til barna sinna með sinn mikilvæga boðskap. En hver er boðskapurinn? Hvar er vonin? Hvert er svarið? Börn klæddust BDSM búningum á Öskudag og mér til mikillar skelfingar er því tekið með fögnuði hinna fullorðnu. Eigum við að bjóða BDSM-liðum í skólana næst?  Börn mega ekki heyra minnst á kristilegan boðskap og frá þeim stórhættulega boðskap er þeim varnað en þeim er boðið til borðs með fjandsamlegum hópi sem gerir sig út fyrir hatur með vafasömu kynferðislegu ívafi. Í kynningu skólans á viðburðinum var engu líkara en að um eðlilegan hlut væri að ræða í venjulegum skóladegi barnanna og ekki gert ráð fyrir að eitthvert foreldrið brygði við á nokkurn hátt. Um slíka samfélagslega viðurkennda hluti er að ræða. Hvernig á barn að skilja þennan gjörning. Að vera eins og krúttlegu hatararnir eða vera ekki eins og þeir? Hata hvað? Klæða sig eins og þeir eða ekki? Elska eða hata? Drottna eða kúga?

Hatarnir predikuðu boðskap sinn í boði skólans til barnanna á þann hátt að þeir væru í raun og veru góðir að berjast gegn hinu illa. Blekkingin er sem sagt algjör þar sem hatarar eru í raun og veru flytjendur hins gagnstæða og boðberar kærleikans. Þvílík vitfyrra. Hver eru skilaboðin? Að það að klæða sig upp eins og sjálfur skrattinn og hrópa út hatur og böl sé leiðin til sigurs og breytinga til hins betra í samfélaginu? Hér tekst á hin mikilvæga togstreita góðs og ills en í þessu ævintýri er hið illa orðið gott æskunni til mikillar ringulreiðar. Skil myrkurs og ljóss eru hér óljós og gefið í skyn að eitthvert ljós komi úr myrkrinu.

Í Rómverjabréfinu 12:21 segir : „Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ Hatrið verður því ekki sigrað með hatri og úr myrkri hlýst ekkert ljós. Sigur þessa sorglega atriðis segir margt um hina íslensku þjóð og að kristilegt siðgæði er á undanhaldi. Fagnaðarerindi Jesú Krists er álitið sem hvert annað grín eða fals með sinni afgerandi siðferðishnignun sem kórónast í þessu atriði hatara og þess fylgis sem það fær. Kristur með sína áherslu á fyrirgefninguna, kærleikann og ákveðnar siðferðisreglur sem mönnum ber að lifa eftir má sín lítils.

Þjóðin virðist stolt af því að senda þetta framlag sitt til sjálfs Ísraels og íslensk börn eru frædd á heimilum sínum og í skólum um ágæti hatara og þess sem þeir standa fyrir. Hins vegar er boðskapur haturs, myrkurs, reiði og hvers kyns bölvunar ekki boðskapur sem allir foreldrar vilja flækja börn sín í og er þvert á þann boðskap sem þeir vilja að börn sín tileinki sér.

Ég lýsi því hér með yfir að vera algjörlega á móti þeirri firringu sem hér hefur skapast og fullyrði að hatrið mun ekki sigra.

Sannleikurinn er sá að kærleikurinn er Guð sem mun allt sigra. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi og í honum er fólginn sannleikur. Kærleikur byggir upp, uppörvar og fyrirgefur. Eins og segir í fyrra korintubréfi 13 kafla þá er kærleikurinn langlyndur og góðviljaður, öfundar ekki. Og er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Kærleikurinn hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki og er ekki langrækinn. Svo eru það öll kærleiksverkin en án þeirra fær ekkert samfélag þrifist. Eins og segir í Orðskviðunum 10 kafla vekur hatur illdeilur en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.

Í Rómverjabréfinu 13 kafla segir að kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Og í Síraksbók 11 kafla segir að kærleikur og góðverk séu frá Drottni en ekki villa og myrkur Í fyrsta Jóhannesarbréfi 3. Kafla segir að við eigum ekki að elska með tómum orðum heldur í verki og sannleika. Í Fyrsta Jóhannesarbréfi 4 kafla segir...því að Guð er kærleikur… Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. ..Þetta er kærleikurinn..

Í Matteusarguðspjalli 24 kalfa segir.. vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna.

Höfundur er master í blaða- og fréttamennsku.




Skoðun

Sjá meira


×