Erlent

Trump leggur upp í annan slag við þingið um landamæramúr

Kjartan Kjartansson skrifar
Eintök af fjárlagatillögum Trump forseta á Bandaríkjaþingi í dag. Engar líkur eru taldar á að það fari óbreytt í gegnum þingið.
Eintök af fjárlagatillögum Trump forseta á Bandaríkjaþingi í dag. Engar líkur eru taldar á að það fari óbreytt í gegnum þingið. Vísir/EPA
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta krefst 8,6 milljarða dollara aukafjárveitingar til landamæramúrsins sem forsetinn vill reisa í tillögum sínum að fjárlögum næsta árs sem verða sendar Bandaríkjaþingi í dag. Það er margfalt hærri upphæð en þingið hefur veitt til landamæraverkefna undanfarin ár. Slagur um fjárveitingar til múrsins lömuðu alríkisstofnanir í rúman mánuð í byrjun árs.

Reuters-fréttastofan segir að fjárveitingin sé sex sinnum meira en þingið hefur úthlutað til landamæranna undanfarin tvö fjárlagaár og sex prósent hærri en þeir fjármunir sem Trump hefur nurlað saman með því að taka sér völd til neyðarráðstafana á landamærunum í síðasta mánuði.

Litlar líkur eru á að Trump verði að ósk sinni þar sem demókratar eru með meirihluta í fulltrúadeild þingsins. Leiðtogar þeirra hafa sagt landamæramúrinn óþarfan og ósiðlegan.

„Þingið neitaði að fjármagna múrinn hans og neyddist til að viðurkenna ósigur og opna ríkisstofnanir aftur. Sama sagan endurtekur sig nú ef hann reynir þetta aftur. Við vonum að hann hafi lært sína lexíu,“ sögðu Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, og Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, í sameiginlegri yfirlýsingu í gær.

Stefnir í harðan slag í haust

Ákvörðun Trump um að lýsa yfir neyðarástandi á landamærunum til að geta ráðstafað fjármunum til múrsins án samþykkis þingsins er afar umdeild. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur þegar samþykkt að afturkalla yfirlýsingu hans og búist er við að öldungadeildin geri það einnig í vikunni. Trump mun að öllum líkindum beita neitunarvaldi sínu gegn ályktun þingsins. Nokkur ríki hafa sömuleiðis stefnt ríkisstjórninni vegna yfirlýsingar forsetans.

Næsta fjárlagaár hefst 1. október. Samþykki þingið ekki ný fjárlög fyrir þann tíma gæti aftur komið til þess að ríkisstofnunum verði lokað líkt og gerðist rétt fyrir jól. Þá hótaði Trump að synja útgjaldafrumvörpum undirskriftar ef hann fengi ekki fjárveitinguna sem hann vildi til landamæramúrsins. Um fjórðungur ríkisstofnana var lokaður í 35 daga þegar fjárveitingar þeirra runnu út.

Deilan um fjárlögin verður enn vandasamari því þingið og Hvíta húsið þurfa einnig að samþykkja að hækka þak á útgjöld sem bundið var í lög árið 2011. Að öðrum kosti verða framlög til fjölda verkefna alríkisstjórnarinnar skorin niður sjálfkrafa. Um sama leyti þarf Trump að samþykkja að hækka skuldaþak ríkissjóðs eða hætta annars á að Bandaríkjastjórn lendi í greiðsluþroti.

Almennt er tillaga Trump að fjárlögum næsta árs sögð fela í sér almennan fimm prósent niðurskurð á opinberum útgjöldum fyrir utan hernaðarmál.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×