Viðskipti innlent

Innkalla hættulega barnaburðarpoka

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hætta er á því að barnið detti úr pokanum við notkun og þá getur einnig myndast köfnunarhætta.
Hætta er á því að barnið detti úr pokanum við notkun og þá getur einnig myndast köfnunarhætta. Mynd/Neytendastofa
Verslunin Húsgagnaheimilið hefur innkallað hættulega barnaburðarpoka frá Child Wheels by Childhome. Á pakkningunni stendur 3-way baby carriers og er heitið á vörunni Childhome Superstar.

Á vef Neytendastofu kemur fram að framleiðandi burðarpokanna hafi tilkynnt um innköllun eftir að í ljós kom að pokinn væri hættulegur. Slit geti myndast við bönd og festingar, sem geti orðið til þess að barnið detti úr pokanum. Þá er einnig plastmiði á pokanum sem losnar auðveldlega en köfnunarhætta getur myndast ef barnið stingur miðanum upp í sig.

Burðarpokinn hefur verið til sölu í Húsgagnaheimilinu við Fossaleyni og í vefverslun verslunarinnar. Hægt er að skila Childhome Superstar-burðarpokanum í Húsgagnaheimilið og fá endurgreiðslu.

Neytendastofa hvetur foreldra til að hætta notkun burðarpokanna strax og hafa samband við Húsgagnaheimilið.

Þetta er í annað sinn á rétt rúmum mánuði sem Neytendastofa vekur athygli á innköllun á hættulegum barnaburðarpokum. Í byrjun febrúar síðastliðnum innkallaði netverslunin Heimkaup.is tvær gerðir af barnaburðarpokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×