Handbolti

Sigursteinn Arndal tekur við FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigursteinn Arndal tekur við uppeldisfélaginu sínu. Hér er hann með Ásgeiri Jónssyni, formanni FH, á blaðamannafundinum í dag.
Sigursteinn Arndal tekur við uppeldisfélaginu sínu. Hér er hann með Ásgeiri Jónssyni, formanni FH, á blaðamannafundinum í dag. Vísir/TOM
Sigursteinn Arndal var í dag ráðinn næsti þjálfari FH í Olís-deild karla í handbolta en hann tekur við liðinu eftir tímabilið þegar að Halldór Jóhann Sigfússon lætur af störfum.

Sigursteinn Arndal skrifar undir þriggja ára samning við FH en samningurinn var kynntur í Kaplakrika í dag.

Sigursteinn er uppalinn hjá FH og spilaði lengi með liðinu og var þar aðstoðarþjálfari um tíma. Hann þjálfaði áður U20 og U21 árs landslið Íslands og er kominn aftur inn í teymið þar.

Halldór Jóhann Sigfússon, sem gerði FH að bikarmeisturum um helgina, ákvað að framlengja ekki samninginn sinn í Kaplakrika en hann er að fara að stýra yngri landsliðum Barein.

Sigursteinn Arndal hefur verið einn af aðalmönnunum í kringum Olís-deildina á Stöð 2 Sport þar sem hann meðlýsir í öllum beinum útsendingum.

FH-liðið fór í úrslit Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð en tapaði fyrir ÍBV og það fór sömuleiðis alla leið árið 2017 en tapaði þá fyrir Val.

FH er í fjórða sæti Olís-deildarinnar eftir 17 umferðir en liðið mætir næst Aftureldingu í stórleik á sunnudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×