Erlent

Flugvélar kyrrsettar í Bandaríkjunum: Átti í vandræðum með að stýra flugvélinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá slysstað í Eþíópíu.
Frá slysstað í Eþíópíu. AP/Mulugeta Ayene
Uppfært 18:30

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti nú fyrir skömmu að 737 MAX 8 og MAX 9 verða kyrrsettar í Bandaríkjunum um óákveðinn tíma.

Flugstjóri farþegaþotunnar sem brotlenti í Eþíópíu á sunnudaginn tilkynnti að hann átti í vandræðum með að stýra flugvélinni. 157 manns létu lífið í slysinu og hefur það leitt til þess að flugvélar af sömu gerð 737 MAX 8 og MAX 9 hafa verið kyrrsettar um mestallan heim. Flugvél af sömu gerð brotlenti í Jövuhaf í október og þá létust 189. Báðar flugvélarnar brotlentu skömmu eftir flugtak.

Bandaríska fyrirtækið Boeing, sem framleiðir flugvélarnar.

Reuters fréttaveitan hefur eftir Asrat Begashaw, talsmanni Ethiopia Airlines, að flugstjóri flugvélarinnar hafi tilkynnt að hann væri í vandræðum með að stýra henni og hafði beðið um, og fengið, heimild til að snúa við og lenda aftur.



Ethiopia Airlines ætla að senda flugrita flugvélarinnar sem brotlenti í Evrópu til rannsóknar. Enn liggur ekkert fyrir um hvað leiddi til flugslyssins, né hvort og þá hvernig það tengist flugslysinu í Indónesíu.

Þrátt fyrir það hafa yfirvöld víða um heim ákveðið að kyrrsetja flugvélarnar í varúðarskyni og nú í dag var sú ákvörðun tekin í Kanada. Marc Garneau, samgönguráðherra Kanada, sagði þegar hann tilkynnti ákvörðunina að sérfræðingar ráðuneytisins hafi séð líkindi á flugslysunum tveimur í gervihnattagögnum.

Ráðherrann tók þó fram að gögnin væru ekki afgerandi. Réttast væri að hafa öryggi farþega í forgangi.





Flugmálayfirvöld Bandaríkjanna, FAA, hafa enn ekki kyrrsett flugvélarnar þar í landi og eru Bandaríkin meðal fárra ríkja í heiminum sem hafa ekki tekið þá ákvörðun. Forsvarsmenn Boeing segja enga ástæðu til að kyrrsetja flugvélarnar og Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, ræddi sérstaklega við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, til að segja honum að flugvélarnar væru öruggar.

Gæti tekið mánuði að fá niðurstöðu

Í yfirlýsingu frá Daniel K. Elwell, yfirmanni FAA, sem gefin var út í gærkvöldi sagði hann að engin gögn hefðu varpað ljósi á galla í flugvélunum og flugmálayfirvöld annarra ríkja hefðu ekki geta sýnt fram á slíkt. AP fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að það gæti tekið mara mánuði að komast að niðurstöðu í málinu.



Reuters segir einnig að nærri því fimm þúsund 737 MAX flugvélar hafi verið pantaðar hjá Boeing og einhverjir viðskiptavinir fyrirtækisins séu byrjaðir að tilkynna að þeir muni ekki taka við flugvélum í bráð. Í það minnst þar til rannsókn hefur verið lokið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×