Erlent

Bandaríkjamenn segja líkindi með flugslysum

Samúel Karl Ólason skrifar
Forsvarsmenn Boeing segjast styðja ákvörðun FAA en staðhæfa að flugvélarnar séu öruggar. Flugvélarnar hafa verið kyrrsettar um nánast allan heim.
Forsvarsmenn Boeing segjast styðja ákvörðun FAA en staðhæfa að flugvélarnar séu öruggar. Flugvélarnar hafa verið kyrrsettar um nánast allan heim. AP/Yi-Chin Lee
Ný gögn sem bárust flugmálayfirvöldum Bandaríkjanna, FAA, sýna líkindi á milli flugslyssins í Eþíópíu á sunnudaginn og flugslysi í Indónesíu í fyrra. Bæði slysin voru mannskæð í báðum tilfellum var um Boeing 737 MAX 8 flugvélar að ræða. Bandaríkin voru með síðustu löndum heimsins að kyrrsetja MAX 8 og MAX 9 flugvélar Boeing.

Í yfirlýsingu FAA segir að líkindin valdi því að nauðsynlegt sé að rannsaka hvort svipaðar ástæður séu fyrir flugslysunum tveimur. Flugriti flugvélarinnar sem brotlenti í Eþíópíu verður sendur til Frakklands til rannsóknar. Hann mun vera verulega skemmdur og geta Eþíópíumenn ekki lesið gögnin af honum eins og er.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, opinberaði ákvörðunina í kvöld.

Yfirvöld Kanada höfðu komist að sömu niðurstöður fyrr í dag og byggðu ákvörðunina á gervihnattagögnum frá báðum flugslysunum.

Forsvarsmenn fyrirtækisins bandaríska segjast styðja ákvörðun FAA en staðhæfa að flugvélarnar séu öruggar. Flugvélarnar hafa verið kyrrsettar um nánast allan heim.

Fyrr í dag sagði talsmaður Ethiopia Airlines að flugstjóri flugvélarinnar sem brotlenti á sunnudaginn hefði tilkynnt að hann ætti í erfiðleikum með að stýra henni og hafði beðið um, og fengið, heimild til að snúa við og lenda aftur.

Í gær bárust fregnir af því að FAA hafi minnst tvisvar sinnum borist tilkynningar frá flugmönnum í Bandaríkjunum um að flugvélar af þessum gerðum hafi lækkað flugið um tólfhundruð til fimmtánhundruð fet á mínútu, eftir að kveikt var á sjálfsstýringu þeirra. Í bæði skiptin tók þó stuttan tíma að rétta flugvélarnar af, þegar slökkt hafði verið á sjálfsstýringunni.

Samkvæmt Washington Post segja bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar á flugslysinu í Indónesíu í fyrra að skynjari hafi fyrir mistök talið nef flugvélarinnar vera of hátt og sjálfsstýring flugvélarinnar hafi því tekið völdin og lækkað flugið. Flugmenn flugvélarinnar hafi ekki getað hækkað flugið og því hafi hún hrapað í Jövuhaf.


Tengdar fréttir

Boeing ber fullt traust til 737 MAX

Flugvélaframleiðandinn Boeing segist hafa fullan skilning á þeim aðgerðum gripið hefur verið til eftir þotu Ethiopian Airlines um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×