Innlent

Á leið í annað húsnæði sem reyndist vafasamt

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fossvogsskóla var lokað í gær fram á haust. 
Fossvogsskóla var lokað í gær fram á haust.  Vísir/Sigtryggur Ari

„Þau eru ennþá húsnæðislaus, blessuð börnin,“ segir Erna Björk Häsler, foreldri tveggja barna í Fossvogsskóla.

Síðasti kennsludagurinn í bili var í Fossvogsskóla í gær. Skólastarfinu var hætt í kjölfar þess að skoðun verkfræðistofunnar Verkís leiddi í ljós umfangsmikla myglu í húsnæðinu. Reykjavíkurborg hefur sagst ætla að ráðast í endurbætur sem á að verða lokið áður en skólahald hefst haustið 2019.

Í fyrradag var foreldrum barna í Fossvogsskóla sendur póstur um að búið væri að leysa húsnæðisvanda skólans út vorönnina. „Það er okkur sérstök ánægja að geta greint frá því að niðurstaða sé komin í húsnæðismál Fossvogsskóla út þetta skólaár,“ sagði í tölvupósti sem Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri og Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvar, sendu foreldrum.

„Reykjavíkurborg mun leigja húsnæði að Fannborg 2 í Kópavogi. Þar er hentugt húsnæði sem Kópavogur nýtti sér þegar leggja þurfti niður skólahald í Kársnesskóla. Hægt er að koma fyrir kennslu allra árganga Fossvogsskóla í húsnæðinu og er það ómetanlegt fyrir börnin og starfshópinn,“ sagði í tölvupóstinum. En fljótt skipast veður í lofti.

Í Réttarholtsskóla var fundur í gær með foreldrum í­ Fossvogsskóla.

Á fjölmennum fundi með foreldrum í gær tilkynntu skólastjórnendur og fulltrúar borgarinnar að ekkert yrði af því að skólastarf hæfist í Fannborg 2 á mánudag. Við skoðun á húsnæðinu komu í ljós lekaskemmdir og ekki þótti boðlegt að senda börnin úr myglunni í Fossvogsskóla í slíkt óvissuhúsnæði.

„Eru þessi tíðindi mikil vonbrigði. Eins og kom fram á fundinum verður haldið áfram að leita að heppilegu húsnæði fyrir skólastarfið og munum við senda foreldrum upplýsingar um framvindu málsins á morgun [í dag],“ segir í pósti Aðalheiðar skólastjóra sem sendur var foreldrum á áttunda tímanum í gærkvöldi.

„Fólk er í sjokki yfir að það hafi þurft foreldra til að flagga þessu; að það sé ekki löngu búið að gera eitthvað í þessu, vitandi að það væri leki,“ segir Erna aðspurð um stemninguna meðal foreldra. Hún vísar þar til þess að þurft hafi mikla eftirgangsmuni foreldra til að fá ítarlega úttekt á rakaskemmdum í Fossvogsskólanum.

Kanna á ástandið í Fannborg og er niðurstöðu ekki að vænta fyrr en á mánudag. Erna hrósar skólayfirvöldum fyrir að hafa ekki farið þar inn að óathuguðu máli. „Það var aðallega nefnt húsnæði í Laugardal; meðal annars hjá KSÍ og Þróttarheimilið,“ segir hún um aðra möguleika sem nefndir voru á fundinum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×