Körfubolti

Meistararnir stöðvuðu heitasta liðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steph Curry í leiknum í nótt.
Steph Curry í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Meistararnir í Golden State Warriors stöðvuðu sigurgöngu Houston Rockets í NBA-deildinni í nótt þegar liðin áttust við í Texas. Golden State vann tveggja stiga sigur, 106-104.

Houston hafði unnið níu leiki í röð fyrir leikinn í nótt en Golden State hafði aðeins unnið fjóra af síðustu tíu leikjum sínum.

Klay Thompson átti góðan leik fyrir Golden State en hann var með 30 stig og sex fráköst. Steph Curry var með 24 stig en þess má geta að Kevin Durant missti af leiknum í nótt vegna meiðsla.

James Harden náði að skora 29 stig auk þess að gefa tíu stoðsendingar fyrir Houston en hann hitti illa í nótt og nýtti aðeins tvö af tólf þriggja stiga skotum sínum.



Heimamenn náðu að minnka muninn niður í eitt stig á lokamínútunum en Golden State reyndist sterkari aðilinn í lokin.

Golden State er á toppi vesturdeidlarinnar með 46 sigra en Houston er í fjórða sætinu með 42.

Oklahoma City er svo í þriðja sætinu en liðið hafði betur gegn Brooklyn á heimavelli í nótt, 108-96. Russell Westbrook var með enn einu þreföldu tvennuna en hann var með 31 stig, tólf fráköst og ellefu stoðsendingar.



Úrslit næturinnar:

Washington - Orlando 100-90

Oklahoma City - Brooklyn 108-96

Miami - Detroit 108-74

Atlanta - Memphis 132-111

Houston - Golden State 104-106

Phoenix - Utah 97-114

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×