Innlent

Landeigendur segja ríkisstjórn efna til átaka um umráð lands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá aðalfundi Landssamtaka landeigenda á Íslandi í Bændahöllinni í dag. Snorri Jóhannesson, bóndi á Augastöðum, í ræðustól. Þórólfur Halldórsson fundarstjóri og Óskar Magnússon, formaður samtakanna, sitja við háborðið.
Frá aðalfundi Landssamtaka landeigenda á Íslandi í Bændahöllinni í dag. Snorri Jóhannesson, bóndi á Augastöðum, í ræðustól. Þórólfur Halldórsson fundarstjóri og Óskar Magnússon, formaður samtakanna, sitja við háborðið. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Ríkisstjórnin efnir til átaka við bændur og landeigendur með lagafrumvörpum sem færa umráð yfir landi til ríkisstofnana. Þetta kom fram á málþingi samtaka landeigenda í dag undir yfirskriftinni „Hver á Ísland?“. Fjallað var málið í fréttum Stöðvar 2. 

Glöggt mátti heyra á landeigendum á aðalfundi þeirra í Bændahöllinni og málþingi í kjölfarið að þeir telja vegið að eignarétti sínum. 

„Það er mjög þungt í landeigendum, sem að mjög stórum hluta eru, eðli málsins samkvæmt, bændur á Íslandi,“ segir Óskar Magnússon, formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi, og segir um 400 manns í samtökunum.

Óskar Magnússon, formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Snorri Jóhannesson, bóndi á Augastöðum í Borgarfirði, hvatti til þess að dreifbýlið risi upp gegn áformum um að gera allt hálendið að þjóðgarði. 

„Ég óttast að ef menn vilja framkvæma einhverjar nauðsynlegar framkvæmdir, svo sem vegi, leitarmannaskála eða annað á hálendinu, þá þurfi að sækja það allt til Reykjavíkur,“ segir Snorri. 

Einn af eigendum Látrabjargs lýsti því sem hann kallaði yfirgang Umhverfisstofnunar og umhverfisráðherra vegna áforma um friðlýsingu. 

„Þetta séu aðallega stjórnmálamennirnir sem vilja ráða öllu, - og þeir sem vinna hjá ríkinu,“ segir Marías Sveinsson, stærsti eigandi Hvallátra í Vestur-Barðastrandarsýslu.

Marías Sveinsson, stærsti eigandi Hvallátra í Vestur-Barðarstrandarsýslu.Stöð 2/Friðrik Þór Hallldórsson.
Óskar lýsir þremur átakamálum: 

„Í fyrsta lagi er komið fram frumvarp um þjóðgarða, sem vegur mjög að eignaréttindum og umráðum landeigenda, og lítið gert með það að hafa samráð við þá. 

Það er komin viðamikil skýrsla um eignarhald á bújörðum þar sem líka er gert ráð fyrir allskonar íhlutun ríkisvaldsins, sem ekki stenst eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar. 

Og nú í þriðja lagi, sem reyndar hefur farið mjög leynt, er breyting sem framundan er á náttúruverndarlögum, þar sem nánast umráð lands eru tekin af landeigendum. Þeim er ekki heimilt að stöðva för heilu hópferðabílanna eða stórferða um lönd sín, nema það séu einhverjar skipulagðar og endurteknar ferðir,“ segir Óskar.

Snorri Jóhannesson, bóndi á Augastöðum í Hálsasveit.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Snorri á Augastöðum bendir á að bændur séu búnir að sjá um sín lönd í yfir þúsund ár. 

„Og þau eru þarna ennþá, ekki verri en þau eru. Og ég held að landsbyggðarfólk sé alveg fullfært um að sjá um þetta,“ segir Snorri. 

„Ég óttast að það séu átök framundan, já, - milli landeigenda, bænda, - fólks um allt land sem er að reyna að nýta eignir sínar, - ef þetta á allt saman að ná fram að ganga,“ segir Óskar. 

„Þetta er prinsippmál. Við viljum bara ráða þessu,“ segir Snorri. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2: 


Tengdar fréttir

Vill koma á fót Þjóðgarðastofnun

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í dag í ríkisstjórn áform um að koma á fót Þjóðgarðastofnun.

Umhverfisráðherra segir hjól friðlýsingar farin að snúast

Umhverfis- og auðlindaráðherra vonast til að hægt verði að ljúka friðlýsingum á fimm svæðum í verndarflokki rammaáætlunar um mitt næsta ár. Efnahagslegur ávinningur tólf friðlýstra svæða á síðasta ári var 33,5 milljarðar.

Telja Þjóðgarðastofnun skerða rétt sinn

Á fjórða tug athugasemda bárust við drög að frumvarpi um stofnun Þjóðgarðastofnunar. Í drögunum eru þjóðgarðar og stjórnsýsla þeirra sameinuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×