Erlent

Mótmæli „Gulu vestanna“ héldu áfram í París

Andri Eysteinsson skrifar
Eldar voru kveiktir og rúður voru brotnar í París í dag.
Eldar voru kveiktir og rúður voru brotnar í París í dag. Getty/Kiran Ridley
Mótmæli „Gulu vestanna“ í Parísarborg héldu áfram í dag, 18 vikur eru frá því að mótmælin hófust í borginni, fyrst gegn hækkun á olíuverði en hafa síðar þróast upp í almennt andóf gegn ríkisstjórn forsetans Emmanuel Macron. BBC greinir frá.

Götum borgarinnar var mörgum hverjum lokað vegna mótmælanna og voru vopnaðir lögreglumenn algeng sjón. Lögregla notaði táragas og gríðarstórar vatnsbyssur til þess að hafa hemil á mótmælendum sem reyndu að grýta lögreglumenn með múrsteinum nærri Sigurboganum.

Fylgi gulvestunga hefur minnkað undanfarnar vikur en í dag virtist hreyfingin hafa náð fyrri styrk, auk þess var mikið um skemmdarverk eins og sum fyrri mótmæli einkenndust af. Verslanir voru lagðar í rúst, eldar voru kveiktir bæði á götum og í að minnsta kosti einum bíl.

Innanríkisráðherra Frakklands, Christophe Castener, sagði að yfir 1400 lögreglumenn hafi verið að störfum vegna mótmælanna. Castener sagði að um 8000 mótmælendur hefðu verið á strætum Parísar í dag, þar af 1500 ofbeldisseggir sem hefðu það eitt að markmiði að brjóta, bramla og slást.

Hér má sjá vatnsbyssu frönsku lögreglunnar í notkun við að slökkva elda.Getty/Arina Lebedeva

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×