Handbolti

Ómar Ingi með stórleik er Álaborg tryggði sig í bikarúrslit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ómar Ingi Magnússon fann sig ekki á HM en hann leikur við hvern fingur með félagsliði sínu
Ómar Ingi Magnússon fann sig ekki á HM en hann leikur við hvern fingur með félagsliði sínu vísir/getty
Íslendingalið Álaborgar spilar til úrslita í dönsku bikarkeppninni í handbolta eftir tveggja marka sigur á Bjerringbro-Silkeborg í undanúrslitunum.

Ómar Ingi Magnússon átti stórleik fyrir Álaborg með 7 mörk og 5 stoðsendingar í 29-27 sigri Álaborgar. Síðasta stoðsending Ómars var á Janus Daða Smárason sem skoraði síðasta mark leiksins og hans eina mark í leiknum.

Liðunum gekk illa að skora í upphafi og voru aðeins komin tvö mörk í leikinn, eitt á hvort lið, þegar sex mínútur voru liðnar. Það jókst aðeins markaskorunin þegar leið á hálfleikinn og í hálfleik var staðan 18-17 fyrir Álaborg.

Bjerringbro átti fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komst því yfir. Álaborg svaraði strax fyrir sig og endurheimti forystuna með tveimur mörkum í röð.

Leikurinn var í járnum allan seinni hálfleikinn. Munurinn á liðunum fór mest í þrjú mörk þegar hálfleikurinn var rétt hálfnaður og Bjerringbro komst í 23-26.

Álaborg náði að jafna leikinn aftur og komst yfir á 55. mínútu með marki frá Magnus Saugstrup 28-27. Meira var ekki skorað í leiknum fyrr en Janus Daði kom boltanum í netið með tvær sekúndur á klukkunni, lokastaðan 29-27.

Álaborg spilar því til úrslita á morgun og mætir þar Skanderborg sem hafði betur gegn Århus í fyrri undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×