Handbolti

Halldór: Fannst þetta ódýr afgreiðsla á leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Halldór var ekki ánægður með sóknarleik FH í kvöld.
Halldór var ekki ánægður með sóknarleik FH í kvöld. vísir/bára
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari nýkrýndra bikarmeistara FH, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í jafnteflinu við Aftureldingu í kvöld.

„Kannski áttum við ekkert meira en stig skilið. Þetta var ekki góður handboltaleikur og mikið um mistök. Við vorum lengst af ólíkir sjálfum okkur. Miðað við spilamennskuna er eiginlega með ólíkindum að við höfum náð jafntefli. Það var ekki fyrr en á síðustu 10-15 mínútunum að við spiluðum alvöru sókn,“ sagði Halldór við Vísi eftir leik.

„Það truflar mig að við höfum ekki spilað betur en þetta og mér finnst ódýrt að skrifa það á bikarinn um síðustu helgi. Við vorum værukærir.“

Halldór sagði varnarleik FH hafa verið góðan í leiknum og hrósaði Kristófer Fannari Guðmundssyni fyrir hans frammistöðu í marki bikarmeistaranna.

„Hann var frábær í leiknum og vörnin líka. Að sama skapi skutum við illa á Arnór [Frey Stefánsson], sérstaklega í dauðafærunum. Það er ansi langt síðan við skoruðum bara 22 mörk í leik,“ sagði Halldór.

Hann var ekki par ánægður með dómgæsluna í leiknum, ekki síst í lokasókn FH þar sem honum fannst Bjarni Ófeigur Valdimarsson eiga að fá vítakast.

„Við áttum að fá víti og brottvísun undir lokin. Leikmenn Aftureldingar viðurkenndu það. Hann var felldur. Það er með ólíkindum að Mosfellingar hafi ekki fengið neina brottvísun í leiknum. Það voru mörg atvik þar sem hefði verið hægt að reka þá út af. Mér fannst dómarnir vera mjög passívir gagnvart þeim og aggresívir gagnvart okkur. Það var mín upplifun. Mér fannst þetta vera ódýr afgreiðsla á leiknum undir lokin,“ sagði Halldór að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×