Enski boltinn

Meistaraheppni hjá Man. City

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sergio Aguero og Bernardo Silva fagna einu af mörkum Manchester City um helgina.
Sergio Aguero og Bernardo Silva fagna einu af mörkum Manchester City um helgina. Getty/Harry Trump
Ummæli Pep Guardiola, stjóra Manchester City eftir nauman 3-2 sigur hans manna á Swansea í enska bikarnum um helgina sögðu sitt. Svanirnir höfðu barist með kjafti og klóm við að verja óvænt forskot í síðari hálfleik en tvö mörk frá City sem áttu aldrei að standa sendu City áfram í undanúrslitin en Swansea úr leik. Guardiola hafði orð á því að honum þætti það leitt að þessi mörk hefðu skilið liðin að í viðtölum eftir leik og gagnrýndi skort á myndbandsdómgæslu á vellinum. Manchester City sótti án afláts í seinni hálfleik og áttu sigurinn að lokum verðskuldaðan en leikmenn Swansea eiga rétt á því að vera ósáttir.

Fæstir áttu von á því að Swansea sem siglir lygnan sjó rétt fyrir ofan fallsætið í Championship-deildinni myndi ná að stríða stjörnum prýddu liði Manchester City. Tvö mörk í fyrri hálfleik breyttu því og leiddi Swansea í upphafi seinni hálfleiks áður en Bernando Silva minnkaði metin með snyrtilegu skoti.

Nokkrum mínútum síðar var vafasöm vítaspyrna dæmd á Swansea, Cameron Carter-Vickers átti frábæra tæklingu en dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu fyrir brot á Raheem Sterling í stað hornspyrnu.

Á punktinn steig Sergio Agüero og fór spyrna hans af stönginni aftur í markvörð Swansea og í netið. Aftur brugðust dómararnir tíu mínútum fyrir leikslok þegar Agüero var rangstæður þegar hann skallaði boltann í netið af stuttu færi sem reyndist vera sigurmarkið.

Tvö mörk sem myndbandsdómgæsla hefði komið í veg fyrir en enska knattspyrnusambandið kaus að nota ekki myndbandsdómgæslu á þessum leik. Ákveðið var að tæknin yrði aðeins notuð á heimavöllum úrvalsdeildarliða en Swansea sem féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor er með búnaðinn til staðar.

„Það ber að spyrja enska knattspyrnusambandið af hverju myndbandsdómgæsla var ekki notuð í dag. Búnaðurinn er til staðar en kosið var að nota hann ekki. Ef þetta var ekki vítaspyrna og sigurmarkið þá þykir mér það leitt því ég vil ekki vinna leiki með þessum máta.“

Takist Manchester City að landa enska bikarnum þetta árið munu eflaust fáir líta til baka á heppnina sem var með þeim í liði í þessum leik. Til þess að vinna titla þarftu að hafa heppnina með þér í liði og er Manchester City í dauðafæri á að vinna enska bikarinn í ár enda með lang sterkasta liðið sem eftir er í bikarkeppninni þetta árið.

Með hverri vikunni sem líður færist draumurinn um fernuna nær Manchester City. Þegar lokakafli tímabilsins er að hefjast eftir landsleikjahlé er liðið í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, undanúrslitum bikarsins og með örlögin í eigin höndum í deildinni en öllu þessu fylgir mikið leikjaálag sem leikmenn City þurfa að takast á við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×