Enski boltinn

Mo Salah gagnrýndur fyrir markagræðgi og eigingirni og fær ekki góða dóma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah.
Mohamed Salah. Getty/Michael Regan
Mohamed Salah fékk stóran skammt af gagnrýni frá fjölmiðlum og knattspyrnuspekingum fyrir slaka frammistöðu sína á móti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Liverpool rétt marði sigur á Fulham í leiknum en leikurinn hefði líklega aldrei verið svona spennandi hefði Mohamed Salah nýtt færin sín á eðlilegan hátt.





Salah var í miklu stuði framan af tímabili og var markahæstur í deildinni þegar hann fékk á sig harða gagnrýni fyrir leikaraskap í leik á móti Crystal Palace um miðjan janúar. Síðan þá hefur verið lítið að frétta af Egyptanum.

Hann hefur nú beðið eftir fimmtugasta markinu sínu fyrir Liverpool í 37 daga og sjö leiki leiki. Sjálfstraustið er horfið og þrátt fyrir endalaust traust frá knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp þá klúðrar Salah öllum færum þessa dagana.

Liverpool Echo virðist vera búið að missa þolinmæðina fyrir Mohamed Salah ef marka má einkunnagjöf blaðsins fyrir leikinn á móti Fulham því Salah er þar langneðstur.



Mohamed Salah fékk aðeins fimm í einkunn en hæstir voru þeir Joel Matip og Sadio Mane með átta hvor. Alisson Becker, Virgil van Dijk og Roberto Firmino fengu allir 6 en aðrir voru hærri.

Jamie Carragher gagrýndi líka Mohamed Salah og kallaði hann „eigingjarnan og gráðugan“ í útsendingu Sky Sports eftir leikinn.

„Fékk ekki mikla hjálp frá dómaranum og [Joe] Bryan var honum erfiður mótherji,“ segir í umfjöllun Liverpool Echo um frammistöðu Mohamed Salah.

„Var ógnandi eins og vanalega en reyndi of mikið sjálfur og var hvað eftir annað of gráðugur í góðum sóknum Liverpool. Klikkaði á dauðafæri til að gera endanlega út um leikinn,“ sagði enn fremur í frammistöðumati Liverpool Echo um Salah.

Liverpool komst aftur á toppinn án mikillar hjálpar frá Mohamed Salah en það er ljóst að hann þarf að finna skotskóna á ný ætli liðið að verða enskur meistari. Það gerist örugglega ekki án marka frá Mohamed Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×