Innlent

Ferðamanni á 157 km/klst veitt eftirför að Keflavíkurflugvelli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ökumaðurinn var á leið eftir Reykjanesbraut.
Ökumaðurinn var á leið eftir Reykjanesbraut. Vísir/vilhelm
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nú í vikunni erlendan ferðamann sem mældist á 157 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90, eftir langa eftirför í átt að Keflavíkurflugvelli.

Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglubifreiðar heldur ók rakleiðis áfram í átt að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu. Lögreglumenn veittu manninum eftirför alllanga vegalengd en hann stoppaði ekki fyrr en annarri lögreglubifreið var ekið á móti honum. Maðurinn játaði hraðaksturinn og greiddi sekt á staðnum.

Þá þurfti að veita öðrum ökumanni eftirför þar sem hann stöðvaði ekki bifreið sína þrátt fyrir merki frá lögreglu. Sá var grunaður um ölvunarakstur.

Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af nær tíu bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar. Enn fremur hafði lögregla afskipti af allmörgum ökumönnum sem virtu ekki stöðvunarskyldu, töluðu í síma undir stýri án handfrjáls búnaðar eða lögðu bifreiðum sínum ólöglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×