Erlent

Bannar atkvæðagreiðslu um óbreyttan Brexit-samning

Andri Eysteinsson skrifar
John Bercow þingforseti hefur bannað atkvæðagreiðslu um óbreyttan Brexit samning
John Bercow þingforseti hefur bannað atkvæðagreiðslu um óbreyttan Brexit samning EPA/Breska þingið
Forseti fulltrúadeildar breska þingsins, John Bercow, hefur úrskurðað að ekki verði greidd atkvæði um Brexit-samninginn að nýju fyrr en að gerðar hafa verið breytingar á efni hans. Bercow, sem greindi fulltrúadeildinni frá þessu í ávarpi fyrir þinginu í dag, vísaði til þingvenju sem rekja má til ársins 1604. BBC greinir frá.

Samkvæmt venjunni er óheimilt að biðja þingmenn um að greiða atkvæði um nákvæmlega sama þingmálið oftar en einu sinni. Síðast var kosið um Brexit-samning Theresu May, forsætisráðherra, í síðustu viku.

Var þeirri útgáfu samningsins hafnað með 149 atkvæða meirihluta. Ljóst er að úrskurður þingforsetans setur ríkisstjórnina í enn erfiðari stöðu en eingöngu eru ellefu dagar þar til að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu á að ganga í gegn.

Talsmaður forsætisráðuneytisins sagði þingforsetann ekki hvorki hafa varað ríkisstjórnina við innihaldi yfirlýsingarinnar né hafa tjáð þeim að von væri á yfirlýsingunni. May hafði samþykkt að boða til atkvæðagreiðslu um samninginn í þriðja skiptið á komandi dögum, þingmenn höfðu að sögn Bercow lýst yfir áhyggjum sínum af því að óbreyttur samningur yrði borinn fyrir þingið og kvað Bercow sig því tilneyddan til að úrskurða um réttmæti þess.

Andstæðingar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á þinginu fögnuðu ákvörðun forsetans. Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins (SNP) á þingi, Ian Blackford sagði að komin væri upp stjórnarskrár krísa og forsætisráðherra ætti að kalla leiðtoga úr stjórnarandstöðunni á sinn fund, tafarlaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×