Enski boltinn

Pochettino ánægður hjá Tottenham og hugsar sér ekki til hreyfings

Pochettino er glaður.
Pochettino er glaður. vísir/getty
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, segir að hann sé ánægður hjá félaginu. Hann segist ekki vera að hugsa sér til hreyfings en tekur það jafnframt fram að hann hugsi ekki of langt fram í tímann.

Þessi 47 ára gamli stjóri skrifaði undir fimm ára samning við Tottenham fyrir tíu mánuðum en hefur eftir það verið duglega orðaður við bæði Manchester United og Real Madrid er bæði lið voru í erfiðleikum og þjálfaralaus.

Nú eru hins vegar bæði lið komin með stjóra, að minnsta kosti tímabundið, og bendir allt til þess að Pochettino verði áfram hjá Tottenham þar sem hann er sáttur.

„Ég er mjög ánægður hjá Tottenham og er með fjögurra ára samning. Kannski eru 99% annara stjóra með öðruvísi hugsunarhátt,“ sagði Pochettino í samtali við fjölmiðla.

„Ég nýt starfsins frá degi til dags og það sem gerist á morgun verður afleiðingin af því sem gerðist í dag. Ég lít ekki of langt fram í tímann eða hugsa um það. Þegar ég skrifaði undir samninginn gerði ég það útaf ég er ánægður.“

Tottenham hefur ekki keypt leikmann í rúmt ár og urðu fyrsta félagið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til þess að gera það. Þrátt fyrir það er liðið í þriðja sæti deildarinnar og það er ekki eitthvað sem fólk bjóst við, segir Pochettino.

„Enginn hélt að Tottenham myndi verða í baráttunni á þessu ári eftir eyðslu annara félaga sem þurfa að vinna titla. Tottenham er öðruvísi en þrátt fyrir allt erum við í baráttunni, vegna okkar gilda. Við vonumst til að klára tímabilið vel,“ sagði Pochettino.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×