Enski boltinn

Hefur ofurtrú á Hudson-Odoi: „Getur komist í liðið hjá hvaða félagi sem er“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Boothroyd hefur mikla trú á Odoi.
Boothroyd hefur mikla trú á Odoi. vísir/getty
Aidy Boothroyd, þjálfari U21-árs landslið Englands, segir að vængmaðurinn Callum Hudson-Odoi gæti komist í liðið hjá hvaða liði sem er í heiminum í dag.

Hudson-Odoi var kallaður inn í enska A-landsliðshópinn um helgina í fyrsta sinn en hann gæti leikið sinn fyrsta A-landsleik er England mætir Tékklandi og Svartfjallalandi í undankeppni EM 2020.

Hudson-Odoi hefur verið eftirsóttur og Bayern Munchen vildi krækja í vængmanninn í janúar en Chelsea neitaði að selja hann. Þrátt fyrir það hefur hann fengið fá tækifæri og hefur ekki byrjað leik í ensku úrvalsdeildinni.

„Hann er ungur maður með mikið sjálfstraust. Hann er efnilegur, fljótur, beinskeyttur og klókur,“ sagði Boothroyd. „Ég hef verið hrifinn af honum hvort sem hann er að koma inn af bekknum eða byrja leiki.“

„Hvert sem hann fer, þá er hann með nægilega mikið af gæðum til þess að vera í byrjunarliðinu. Okkar markmið er að koma sem flestum leikmönnum inn í ensku úrvalsdeildina.“

„Núna er það þannig að mörg önnur félög, utan Englands, eru að reyna ná í bestu ensku leikmennina. Við höfum séð að leikmennirnir hafa fengið að fara og fá að spila í stað þess að berjast hjá sínu félagi.“

„Yfirleitt er það þannig að því stærra sem félagið er, því erfiðara er að brjótast inn í liðið,“ sagði þessi flinki stjóri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×