Enski boltinn

Birkir um Aston Villa: Kom ekki til greina að fara í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Það er óhætt að segja að síðustu vikur hafi verið erfiðar hjá Birkir Bjarnasyni í Aston Villa, sem leikur í ensku B-deildinni. Birkir hefur spilað aðeins sex mínútur í deildinni síðan 19. janúar.

Birkir er nú kominn til Peralada á Spáni þar sem hann undirbýr sig nú ásamt íslenska landsliðinu fyrir fyrstu leiki þess í undankeppni EM 2020.

„Mér líður mjög vel hjá Aston Villa,“ segir Birkir fyrst og fremst um dvöl sína hjá félaginu, en þar hefur hann verið síðan hann var keyptur frá Basel í janúar 2017.

„Ég er þó alls ekki sáttur með að hafa spilað svona lítið síðustu mánuði. Svona er þetta. Ég verð að halda áfram og reyna mitt besta, vona að ég fái fleiri tækifæri.“

Hann segir að það hafi ekki komið til tals að hann færi frá Aston Villa þegar opið var fyrir félagaskipti í janúar.

„Ekki eins og staðan er núna. En við sjáum til hvað gerist, eftir þetta tímabil á ég eitt ár eftir af samningi mínum. Mér líður hjá vel hjá félaginu og vonandi fæ ég aftur tækifæri.“

Aston Villa er í sjötta sæti ensku B-deildarinnar en liðin í 3.-6. sæti taka þátt í umspili um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Við erum að ná að festa okkur í sessi í umspilssæti og ég ætla að gera allt sem ég get þessa síðustu tvo mánuði tímbilsins til að halda mér í formi og hjálpa liðinu. Svo sjáum við til hvað gerist í sumar.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×