Fótbolti

Arnór Sig: Verðum að vera klárir í alvöru slag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Hinn nítján ára Arnór Sigurðsson gæti fengið stórt hlutverk í leikjum Íslands sem eru fram undan í undankeppni EM 2020.

Arnór er eini leikmaðurinn í leikmannahópnum sem er undir tvítugu. Albert Guðmundsson, sóknarmaður AZ, er 21 árs en annars eru allir í íslenska landsliðinu 24 ára eða eldri.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Það eru allir þvílíkt spenntir og gíraðir. Þetta verða tveir ólíkir leikir en það eru allir mjög spenntir að byrja,“ sagði Arnór og engu líkara en að hann hafi verið í landsliðinu til fjölda ára.

„Við vitum hversu mikilvægir þessir fyrstu leikirnir í riðlinum eru. Við þurfum að vera 100 prósent klárir í alvöru slag,“ bætti hann við.

Fyrsti leikurinn í riðlinum verður útileikurinn gegn Andorra á föstudag. Eitt helsta umræðuefnið fyrir þann leik er gervigrasvöllurinn þar sem leikurinn fer fram, en völlurinn þykir í slæmu ástandi.

„Við þurfum að fara inn í þennan leik eins og að þetta sé úrslitaleikur fyrir okkur. Við vitum af gervigrasinu en þetta eru líka baráttumenn og við þurfum að vera þolinmóðir. En við ætlum okkur að klára þennan leik.“

Arnór er í stóru hlutverki hjá rússneska stórliðinu CSKA Moskvu. Hann hefur spilað flesta leiki tímabilsins og oftast verið byrjunarliðsmaður, þó svo að hann hafi komið inn á sem varamaður í síðustu tveimur leikjum liðsins.

„Þetta hefur farið mjög vel af stað [eftir vetrarfríið]. Við tókum tvo mánuði í undirbúningstímabil á Spáni í vetur og nú er þetta byrjað aftur. Við erum í öðru sæti í deildinni og erum að berjast um titilinn. Mér líður mjög vel í Rússlandi, þetta er stór og flottur klúbbur.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×