Handbolti

Þriðji meðlimurinn kynntur í Goðsagnarhöll KA-manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndirnar af Guðjón Val, Patreki og Valdimar í KA-húsinu.
Myndirnar af Guðjón Val, Patreki og Valdimar í KA-húsinu. Skjámynd/KA-TV
Meðlimir í Goðsagnarhöll KA-manna eru orðnir þrír eftir að Valdimar Grímsson bættist í hópinn fyrir leik KA og Selfoss í Olís deild karla í gær.

KA-menn kynna ný nýjan Goðsagnarhallarmeðlim í hverjum heimaleik en áður höfðu þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Patrekur Jóhannsson fengið þennan heiður.

Allir meðlimir Goðsagnarhallar KA fá risastóra mynd af sér hengda upp í KA-húsinu.

Allir komu þeir Guðjón Valur, Patrekur og Valdimar norður á tíunda áratugnum en þeir náðu þó ekki að vinna Íslandsmeistaratitilinn með félaginu. KA vann 1997 titilinn eftir að Valdimar og Patrekur fóru frá liðinu og áður en Guðjón Valur kom. KA vann síðan 2002 titilinn eftir að Guðjón Valur var farinn út í atvinnumennsku.

Valdimar og Patrekur hjálpuðu hins vegar KA að vinna bikarmeistaratitilinn árið 1995. Patrekur varð líka bikarmeistari með KA 1996.

Valdimar Grímsson kom fyrstur fyrir tímabilið 1993-94 og lék í tvö tímabil. Fyrra tímabilið var hann markakóngur deildarinnar. Valdimar fór aftur suður eftir 1994-95 tímabilið.

Patrekur Jóhannesson kom árinu á eftir Valdimar og spilaði sitt fyrsta tímabil fyrir norðan 1994 til 1995. Patrekur spilaði í tvö tímabil fyrir norðan og KA varð bikarmeistari bæði árin. Patrekur varð markóngur deildarinnar og kosinn besti leikmaðurinn 1994-95 tímabilið. Patrekur fór út í atvinnumennsku eftir 1995-96 tímabilið.

Guðjón Valur Sigurðsson er sá eini af þeim þremur sem er enn að spila. Guðjón Valur kom til KA frá Gróttu fyrir 1998/99 tímabilið og lék með liðinu í þrjú tímabil. Hann var kosinn besti leikmaður deildarinnar á seinni tveimur tímabilum sínum með Akureyrarliðinu en náði ekki að vinna Íslands- eða bikarmeistaratitil fyrir norðan. KA varð aftur á móti deildarmeistari á síðasta tímabili Guðjóns Vals.

KA á eftir tvo heimaleiki í Olís-deildinni og þeim gæti fjölgað takist liðinu að vinna sér sæti í úrslitakeppninni. Það komast því kannski fleiri inn í Goðsagnarhöll KA-manna í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×