Innlent

Áform um auknar rannsóknir á plastmengun í hafinu við Ísland

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Engin markviss vöktun er með plastmengun í hafinu umhverfis Ísland. Mörg stór verkefni eru þó í bígerð, meðal annars í samstarfi við Norðurlönd. Sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir að hreinsun á skólpi gæti verið til mikilla bóta til að draga úr plastmengun.

Plastmengun í hafinu er vaxandi áhyggjuefni um allan heim. Þótt ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar á plastmengun í hafinu við Ísland eru slíkar rannsóknir þó frekar stutt á veg komnar að sögn sérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun.

„Þetta er allt í startholunum og það eru margir byrjaðir að gera svona einstaka rannsóknir en eiginleg vöktun er ekki hafin, svona á föstum stöðvum, heldur er aðallega verið að reyna að finna út hvaða tegundir á að vakta, hvaða tegundir eru heppilegar hér til dæmis við Ísland og hérna á norðurslóðum og hvaða aðferðafræði eigi að nota til þess að einangra plastið,“ segir Eydís Salome Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Hafró. „Þetta er vinna sem að er að fara í gang, og er í rauninni hafin, en þetta er svona frekar nýtt allt saman.“

Í nýlegri rannsókn Umhverfisstofnunar fannst örplast í 55% kræklings sem var rannsakaður. Að sögn Eydísar skortir ennþá rannsóknir til að geta ályktað um heildarumfang örplastmengunar í hafinu umhverfis Ísland en það horfir til betri vegar í þeim efnum. „Í tengslum við formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni var sett á laggirnar netverkefni sem að miðar að því að staðla aðferðir við greiningu og aðferðafræði í tengslum við plastrannsóknir,“ segir Eydís.

Hún segir alla geta með einhverjum hætti geta lagt baráttunni gegn plastmengun lið, til dæmis með því að draga úr notkun þess. Stjórnvöld geti líka lagt sitt af mörkum. „Það væri til dæmis hreinsun á skólpi sem að færi frá landi og út í sjó, það væri til mikilla bóta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×