Viðskipti innlent

Bjóða um 5,5 prósenta hlut í Fossum til sölu 

Hörður Ægisson skrifar
Þorbjörn Atli Sveinsson.
Þorbjörn Atli Sveinsson.
Þorbjörn Atli Sveinsson og Gunnar Freyr Gunnarsson, verðbréfamiðlarar og meðeigendur að Íslenskum fjárfestum, leita nú kaupenda að samtals 5,5 prósenta hlut sínum í A-flokki hlutabréfa í Fossum Mörkuðum. Óformlegar viðræður við áhugasama fjárfesta hafa átt sér stað á undanförnum vikum, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Þorbjörn Atli og Gunnar Freyr, sem voru á meðal þeirra sem stóðu að stofnun Fossa markaða vorið 2015, sögðu upp störfum hjá verðbréfafyrirtækinu í mars í fyrra og gengu til liðs við Íslenska fjárfesta um sjö mánuðum síðar. Deilur hafa staðið yfir undanfarna mánuði um verðmæti eignarhluta þeirra í félaginu í tengslum við innlausn á hlutabréfunum. Stærstu hluthafar Fossa eru Sigurbjörn Þorkelsson, stjórnarformaður, Haraldur I. Þórðarson, forstjóri, og Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaða.

Ágreiningurinn hefur farið fyrir dómstóla og í síðustu viku var málið þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Til stendur að tveir dóm­kvaddir matsmenn verði skipaðir til að fá úr því skorið hvert sé markaðsvirði eignarhluta Þorbjörns Atla og Gunnars Freys, sem þeir eiga í gegnum félögin Norðurvör og Selsvelli, í Fossum Mörkuðum.

Hagnaður Fossa í fyrra nam um 258 milljónum króna fyrir skatta og dróst saman um liðlega 55 milljónir milli ára. Tekjur félagsins jukust hins vegar um 56 milljónir og voru samtals 855 milljónir króna. Heildareignir Fossa voru um 546 milljónir í árslok 2018 og nam eigið fé félagsins um 388 milljónum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×