Viðskipti innlent

Farþegum Wow air fækkaði um þriðjung á milli ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Wow air hefur átt undir högg að sækja síðustu misseri.
Wow air hefur átt undir högg að sækja síðustu misseri. Vísir/Vilhelm
Rúmlega þriðjungsfækkun varð á farþegum sem Wow air flutti til og frá landsins í febrúar borið saman við sama mánuð í fyrra. Framboð á sætum dróst saman um meira en fjórðung en sætanýting minnkað lítillega.

Í tilkynningu frá Wow air kemur fram að félagið hafi flutt 139.000 farþega í febrúar. Það var 34% færri en í sama mánuði í fyrra. Sætanýtingin var 84%, borið saman við 88% árið áður. Framboð á sætum dróst saman um 28%.

Hlutfall farþega í tengiflugi var svo gott sem óbreytt á milli ára. Það var 39% í febrúar en 40% árið áður. Í yfirlýsingu sem er höfð eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow air, lýsir hann ánægju með að stundvísi félagsins hafi batnað verulega á milli ára.

Rekstrarvandi Wow air hefur verið til stöðugrar umfjöllunar undanfarna mánuði. Félagið sagði upp á fjórða hundrað starfsmanna og fækkaði í flugvélaflota sínum í desember. Undanfarið hafa viðræður staðið yfir um að bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners fjárfesti í Wow air.

Þær viðræður virðast þó hafa gengið brösuglega. Um mánaðamótin bárust fréttir af því að fyrirtækið hafi ekki greitt mótframlagsgreiðslur í lífeyris- og séreignarsparnað síðustu þrjá mánuði.


Tengdar fréttir

Gætu þurft að taka á sig tugprósenta afföll

Fulltrúar Indigo Partners krefjast þess að skuldabréfaeigendur WOW air taki á sig tugprósenta afskriftir og að endanlegur hlutur Skúla Mogensen verði minni en áður hefur verið rætt um. Skilyrðin ollu Skúla miklum vonbrigðum.

Telur viðræðurnar stranda á eignarhlut Skúla

Stærsti ásteytingarsteinninn í viðræðum Indigo Partners og WOW air er stærð eignarhlutar stofnanda flugfélagsins eftir fjárfestingu bandaríska sjóðsins, að sögn heimildarmanns bresks viðskiptablaðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×