Menning

„Þessu næ ég fram með nótnaskrift sem hreyfist á tölvuskjá“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá sveitina undirbúa verkið.
Hér má sjá sveitina undirbúa verkið.
„Tónlistin myndar ævintýraheim og íhugult andrúmsloft. Ákefð og ofsi mæta yfirvegun og ró. Þetta er tónlist sem flæðir eins og lífið - óreglulegt en samt í samhengi. Eins og náttúran er, flæðandi, engir kassar og ekkert rúðustrikað,“ segir tónlistarmaðurinn Guðmundur Steinn Gunnarsson en Fengjastrútur frumflytur Sinfóníu nr. 1 eftir Guðmund Stein í Mengi annað kvöld.

„Þessu næ ég fram með nótnaskrift sem hreyfist á tölvuskjá og þarf ekki að styðjast við hefðbundnar nótur alfarið, sérstaklega ekki hvað varðar takt,“ segir Guðmundur en hann lærði tónsmíðar í Listaháskólanum og í Mills College í Bandaríkjunum.

„Ég kom aftur heim beint í hrunið, en eftirhrunsárin reyndust vera mjög gjöful í listalífinu og samtökin S.L.Á.T.U.R. fóru t.d. á mikið flug. Sama er að segja umtónlistarhópinn Fengjastrút sem leikur á þessum tónleikum og margt fleira. Ég smám saman þróaði tónmál sem byggir á lífrænni hrynjandi. Þetta leiddi mig út í svokallaða hreyfinótnaskrift, þar sem nótur hreyfast á tölvuskjá en þetta voru líka margir aðrir í slátrinu að fást við.“

Sinfónían er fyrir 9 hljóðfæraleikara sem leika á blásturshljóðfæri, breytt strengjahljóðfæri, breyttar munnhörpur og fundna hluti. Tónlistin vinnur með flest það sem bæði tónlistarhópurinn og höfundurinn hafa verið að vinna að undanfarin ár. Könnun á stillingu, hljóðum og hrynjandi þar sem engar línur eru beinar og engin bil eru jöfn.

Sinfónían er tileinkuð minningu rúmenska tónskáldsins Ana-Maria Avram.

Guðmundur Steinn samdi sinfóníuna með sinni aðferð.
Hann segist eiga það sameiginlegt með mörgum í kringum sig að vinna með einhvers konar takmarkanir, þ.e. tónlist með fá hljóð og fáa hluti og umfram allt fáa. Aðeins komast níu gestir á tónleikana sjálfa og Guðmundur segir að þá myndist mikil nánd milli tónlistarfólks og gesta.

„Ekki síst af því að rýmið í Mengi bíður upp á það. Það er engin uppmögnun og fólk heyrir hljóðfærin eins og þau eru. Flest eru hljóðin líka frekar lágvær, flautur, gítarar, munnhörpur, flöskur og annað lítið smádót úr endurvinnslunni.“

Guðmundur segir að gestir megi búast við miklu þegar þeir ganga inn í salinn.

„Þetta er kannski einhvers konar seiður sem þú gengur inn í - eitthvað sem málar myndir í hugann, eitthvað sem orð ná ekki til. Tónlistarflutningurinn er eins og einhvers konar látlaust eftir heimsenda ritúal þar sem allir verða í raun þáttakenndur. Hlutir úr endurvinnslunni fá nýtt líf innan í sjaldgæfri hljóðfærasamsetningu.“

Guðmundur segir að bráðlega komi út tvöfaldur geisladiskur með óperunni sem heitir Einvaldsóður.

„Hún var tekin upp í gömlu sveitakirkjunni á Árbæjarsafni og byggir á gleymdu 17. aldar kvæði sem var samt mjög vinsælt hér áður fyrr. Ég er að hefja söfnun á Karolinafund með von um að gengið frá öllu því síðasta í því samhengi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×