Körfubolti

Gríska fríkið kom Milwaukee aftur á sigurbraut | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Giannis var góður að vanda.
Giannis var góður að vanda.
Giannis Antetokounmpo var allt í öllu í sigri Milwaukee Bucks gegn Indiana Pacers á heimavelli í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en Bucks hafði betur, 117-98.

Giannis fékk tæknivillu snemma leiks sem gerði hann svolítið pirraðan en gríska fríkið svaraði því með að taka yfir leikinn og endaði með 29 stig. Khris Middleton skoraði 27 stig fyrir heimamenn.

Milwaukee batt þar með enda á tveggja leikja taphrinu en það var í fyrsta sinn á tímabilinu sem að liðið tapaði tveimur leikjum í röð. Liðið er með 49 sigra og 17 töp en ekkert lið hefur unnið fleiri leiki í NBA-deildinni í vetur.

Paul George er kominn aftur á flug fyrir Oklahoma City Thunder og munar um minna en hann skoraði 32 stig, tók fjórtán fráköst og gaf sex stoðsendingar en Thunder vann góðan útisigur á Portland í stórleik í vesturdeildinni í nótt, 129-121.

Russell Westbrook lét sitt ekki eftir liggja með 37 stigum, sjö fráköstum og þremur stoðsendingum en Damien Lillard fór hamförum fyrir Portland og skoraði 51 stig, tók fimm fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Lillard setti niður aðeins þrjú þriggja stiga skot af tíu en hann fór 20 sinnum á vítalínuna og hitti úr 18 vítaskotum sínum.

Thunder er með 39 sigra eins og Houston og Portland en liðin berjast hatrammlega um þriðja sætið í vestrinu nú þegar að rétt undir 20 leikir eru eftir af deildarkeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×