Sterling tryggði City dramatískan endurkomusigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sterling var hetjan í kvöld.
Sterling var hetjan í kvöld. vísir/getty
Raheem Sterling tryggði Manchester City dramatískan sigur á Schalke í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Gestirnir í Manchester City áttu fyrstu mínútur leiksns og leit allt út fyrir að kvöldið yrði erfitt fyrir þá þýsku. Á 18. mínútu átti Ralf Fährmann hrikalega sendingu út úr marki sínu, David Silva komst inn í sendinguna áður en hún náði til Salif Sane og lagði boltann fyrir Sergio Aguero sem kláraði auðveldlega.

City náði ekki að nýta sér yfirburði sína frekar og eftir hálftíma leik átti Daniel Caligiuri skot sem fór af Nicolas Otamendi og aftur fyrir. Leikmenn Schalke mótmæltu strax og sögðu boltann hafa farið af hendi Otamendi.

Dómarinn Carlos del Cerro Grande ákvað að ráðfæra sig við myndbandsdómarann. Eftir langan tíma vildi hann fá að skoða atvikið sjálfur en það var ekki hægt, skjárinn við hliðina á vellinum var bilaður. Hann þurfti að treysta á myndbandsdómarann sem dæmdi víti. Nabil Bentaleb fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Nokkrum mínútum seinna fékk Schalke aðra vítaspyrnu. Í þetta skipti var Grande ákveðinn og benti strax á punktinn. Fernandinho braut á Salif Sane í teignum og fékk gult spjald. Aftur skoraði Bentaleb og fóru heimamenn með 2-1 forystu inn í hálfleikinn.

Í seinni hálfleiknum varð martraðarkvöld City enn verra þegar Nicolas Otamendi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 68. mínútu.

Heimamenn höfðu tuttugu mínútur til þess að hanga á forystunni eða jafnvel bæta við gegn tíu mönnum City.

Á 85. mínútu skoraði Leroy Sane stórbrotið mark. Sane var að spila gegn sínu gamla félagi og skoraði beint úr aukaspyrnu af löngu færi.

Frábært mark Sane kveikti í liðsfélögum hans og á síðustu mínútu venjulegs leiktíma skoraði Raheem Sterling sigurmarkið fyrir City eftir lélegan varnarleik Schalke í skyndisókn.

Ótrúleg endurkoma City sem fer með eins marks forystu inn í seinni leikinn í Manchester.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira